Íbúar á Vatnsnesi hafa lengi barist fyrir bættum vegasamgöngum. Umferð um nesið hefur aukist mikið seinustu ár. Íbúar hafa biðlað til ferðamanna að vekja athygli á ástandi vegarins á samfélagsmiðlum.
Íbúar á Vatnsnesi komu saman við Illugastaði vestanmegin á Vatnsnesi í gær og reistu þar skilti með skilaboðum til ferðamanna. Þar koma um 600 ferðamenn á dag yfir sumartímann til að virða fyrir sér seli í villtu umhverfi. Fleiri skilti verða sett upp á fjölförnum ferðamannastöðum á Vatnsnesi. Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir er íbúi á Vatnsnesi. Hún segir aðgerðirnar vera til þess fallnar að vekja athygli á ástandinu.
„Við erum að hvetja ferðamenn til að taka þátt í baráttunni með okkur með því að taka mynd af náttúruperlum sem er að finna hér um svæðið, merkja þær með myllumerkinu okkar #vegur711 og benda á ástand vegarins,“ segir Guðrún.
Engar fyrirætlanir um nýjan veg
Vegurinn er hluti af svokallaðri Norðurstrandaleið, sem er hugsuð sem leið fyrir ferðamenn úr alfaraleið. Íbúar hafa lengi barist fyrir því að vegurinn verði lagaður, en hann er ekki á samgönguáætlun stjórnvalda.
„Ekki svo við vitum. Við auðvitað bindum ofboðslega miklar vonir við að núna þegar samgönguáætlun verður endurskoðuð að nafn okkar komi þar fram. Það er alveg illskiljanlegt, finnst okkur íbúum, að þær leiðir sem skólabíll þarf að fara skuli ekki vera í forgangi,“
Telst varla vera vegur
Skólabílstjóri sem hefur ekið börnum til og frá skóla frá árinu 1972 segir veginn vera skelfilegan.
„Vegagerðin var að hefla veginn núna eftir helgina, hann var orðinn alveg rosalegur, kaflar í honum. En hann er að fara aftur þegar það eru svona miklar bleytur,“ segir Kristmundur Ingþórsson, skólabílstjóri.
Talsverðar rigningar undanfarna daga og vikur hefur gert för þeirra sem leið eiga um Vatnsnes miður skemmtilega. Guðrún segir að þurrt sumar hafi gert ástandið þolanlegt en nú sé tíðin önnur.
„Eins og staðan er núna þá er hún auðvitað mjög slæm. Það er búið að rigna hérna í marga daga, og það kom líka rigningakafli í ágúst. Vegagerðin reynir eins og hún getur að bregðast skjótt við, en hann er mjög fljótur að fara í slæmt ástand,“ segir Guðrún.
Kristmundur segir álagið á bifreiðina vera mikið, þó að hann reyni að sinna viðhaldinu vel.
“Þetta er náttúrulega rosalegt álag á undirvagninn, því þetta er náttúrulega varla vegur sko,“ segir Kristmundur.