Stór skriða féll í Reynisfjöru í nótt og lögregla hefur lokað hluta fjörunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er viðbúið að fleiri skriður geti fallið á næstu dögum. Fyrstu athuganir benda til þess að skriðan sé svipuð að stærð og skriða sem féll þar árið 2005. Skriðan í nótt féll úr móbergsstapa sem er orðinn veðraður og bergið því óstöðugt. Karlmaður höfuðkúpubrotnaði í grjóthruni í fjörunni í gær og barn slasaðist minna. Skriðan í nótt féll úr tuga metra hæð og gekk út í sjó.
Margir ferðamenn hafa gert sér ferð í fjöruna í dag. Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, hefur verið á staðnum síðan klukkan 16:00 og sagði í sjónvarpsfréttum að ekkert hafi hrunið úr Reynisfjalli síðan þá. Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi, segir að ferðamenn hafi virt lokanir í fjörunni. „Ég vil hrósa ferðamönnunum okkar í dag. Nánast allir hafa virt þetta. Ég er bara ánægður með þá.“ Ferðamennirnir hafa margir spurt hvers vegna búið sé að loka hluta fjörunnar.
Sigurður átti að mæta á vaktina klukkan níu í morgun en mætti fyrr. „Já, einhverra hluta vegna þá hrökk ég upp fyrir klukkan sjö og fékk þá tilfinningu að ég þyrfti að kíkja hingað niður í fjöru. Ég var hérna rétt fyrir hálf átta og þá blasti þetta við mér, þessi skriða og kolmórauður sjórinn og svona ský yfir skriðunni og ég áætla að að hún hafi hrunið upp úr sjö.“
Lögregla stendur vaktina á morgun og staðan verður tekin næstu daga. Á föstudag verður fundur með landeigendum og Vegagerðinni og þá fara línur að skýrast um það hvort gripið verður til varanlegra aðgerða.