„Ég hef notið þess að vinna við þetta fag. Og ef það hafa komið upp einhver leiðindi þá er það löngu gleymt hjá mér. Ég geri ráð fyrir að ég fari í þetta sama starf í næsta lífi,“ segir Manfreð Vilhjálmsson arkitekt sem tók á dögunum við Heiðursverðlaunum Hönnunarverðlauna Íslands.
Ferill Manfreðs spannar 60 ár en meðal verka hans er Þjóðarbókhlaðan, Epal-húsið, Nesti í Reykjavík og Veganesti á Akureyri, endurbygging Ásmundarsafns og fuglasafnið í Mývatnssveit. Hann lærði arkitektúr við Chalmers háskóla í Gatuaborg, flutti svo heim að námi loknu á sjötta áratugnum og hefur búið hér og starfað síðan.
Manfreð hafði gaman af sköpun frá unga aldri. „Mér finnst ég hafa verið heppinn að detta í þennan bás kannski, þennan hönnunarbás. Strax í barnaskóla hafði ég gaman af að teikna og svo vann ég svolítið við útskurð. Þar var kennari sem kenndi okkur útskurð, sem er ekki svo algengt í dag hygg ég. En þarna kannski beygðist einhver krókur,“ segir hann.
Alúð í smáatriðum
Pétur Ármannsson arkitekt ritstýrði bók um verk og feril Manfreðs. Að hans sögn eru smáatriðin í hönnun hans eftirtektarverð. „Manfreð hefur mjög næma tilfinningu fyrir umhverfinu en það má segja að hans höfundareinkenni birtist kannski meira í útfærslunni. Og þá sérstaklega þeirri miklu alúð sem hann leggur í smáatriðin í sínum byggingum.“
Manfreð hefur alla tíð lagt áherslu á samspil umhverfis og byggingar, að þar á milli sé samhengi sem ekki megi rjúfa. Hann tekur það vandlega inn í ferlið þegar hann efst handa við að teikna byggingu. „Ég reyni fyrir það fyrsta að kynnast, við skulum segja eigendum eða þeim sem standa fyrir þessu og hverju húsið á að þjóna, hvers konar hlutverk. Ég reyni að setja mig eins vel í þau mál og hægt er. Þetta er annar þátturinn en svo er hitt umhverfið. Það kannski snertir ekki eins eigandann en þetta hvoru tveggja finnst mér þurfa að vera vel hugsað. Ef þetta fellur ekki að umhverfinu verður þetta alltaf framandi hús, skulum við segja.“
Stál, gler og timbur
Pétur segir Manfreð oft hafa fetað ótroðnar slóðir á sínum ferli. „Það er þessi næma tilfinning fyrir umhverfinu. Svo líka, ef ég ætti að nota eitt orð til að lýsa verkum Manfreðs myndi ég nota orðið léttleiki. Hann innleiddi eiginlega hugmyndina um léttbyggingar á sjötta áratugnum þegar hann var að hefja sinn feril. Hann teiknaði bensínstöðvar Nestis í Fossvogi og við Elliðaárnar sem voru sem voru algjör tímamótaverk og þær voru það vegna þess að þar notaði hann nýstárleg byggingarefni. Stál, gler og timbur í samspili á tímabili þegar allir voru að byggja úr massífri steinsteypu. Og síðan útfærði hann þetta ennþá frekar í sínu eigin húsi á Álftanesi sem er líka friðuð bygging og líka algjört tímamótverk í okkar arkitektúr.“