Skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands hefur stefnt íslenska ríkinu vegna embættisfærslna Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Skólameistarinn telur að Lilja hafi ekki staðið rétt að því að auglýsa starf hennar laust til umsóknar. Lilja hafi sagt sér það símleiðis á sunnudegi, að til stæði að auglýsa starfið.
Ágústa Elín Ingþórsdóttir var skipuð skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi frá 1. janúar 2015 til 31. desember á þessu ári. Í sumar ákvað Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra að auglýsa stöðu skólameistara frá og með áramótum lausa til umsóknar. Samkvæmt lögum framlengist skipunartími skólameistara sjálfkrafa um fimm ár, nema ráðherra ákveði að auglýsa starfið. Ákveði ráðherra að gera það, þarf hann að tilkynna skólameistaranum það eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartíminn rennur út. Ágústa telur að við þetta hafi ekki verið staðið, og hefur nú stefnt íslenska ríkinu.
Ekki formleg tilkynning
„Í þessu tilviki barst umbjóðanda mínum bréf ráðherra 1. júlí. Og þá eru ekki lengur 6 mánuðir eftir af skipunartímanum, heldur minna. Með öðrum orðum: Fresturinn til þess að tilkynna er liðinn,“ segir Gísli Guðni Hall, lögmaður Ágústu.
Fresturinn hafði raunar runnið út daginn áður, sunnudaginn 30. júní. Þann dag fékk Ágústa símtal.
„Það vill þannig til að ráðherra hringdi í skólameistara sunnudaginn 30. júní, þar sem þetta málefni barst í tal,“ segir Gísli. „En það var skilningur umbjóðanda míns að það símtal hafi ekki verið tilkynning um ákvörðun, heldur kom það fram að ef ákvörðun yrði tekin, þá yrði sent bréf þar um. Þannig að umbjóðandi minn lítur þannig á að það hafi ekki borist nein formleg tilkynning 30. júní.“
Formleg tilkynning barst svo 1. júlí.
„Bréfið barst með tölvupósti daginn eftir, og með ábyrgðarbréfi sem barst umbjóðanda mínum 4. júlí,“ segir Gísli.
Ráðherra tjáir sig ekki
Auk þessa segir Gísli að ekki hafi verið staðið að ákvörðun um að auglýsa stöðuna með lögmætum hætti.
„Og við byggjum á því að svona ákvörðun verði ekki tekin án málefnalegra ástæðna og án þess að gætt hafi verið reglna stjórnsýsluréttar, til dæmis um andmælarétt og rannsóknarreglu.“
Ágústa krefst þess að viðurkennt verði fyrir dómi að skipunartími hennar framlengist út árið 2025, og að ákvörðun ráðherra um að auglýsa starfið verði felld úr gildi.
Þær upplýsingar fengust frá menntamálaráðuneytinu í dag að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ætli ekki að tjá sig um málið meðan á vinnslu þess stendur. Ríkislögmaður fari með málið fyrir hönd ríkisins.
Í gær var greint frá því að Lilja hafi vikið sæti við skipun skólameistarans, vegna dómsmálsins. Auk Ágústu sækja þrír um stöðuna.