Sveitaböllin eru ekki útdauð, vilja Jón Ólafsson og félagar í Þrótti meina og ætla að sannreyna með alvöru sveitaballi í Laugardalnum á laugardag. Jón er feginn að internetið var ekki til á tímum sveitaballsins með tilheyrandi myndböndum og ljósmyndum.
Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson heldur ásamt fríðu föruneyti alvöru sveitaball með íslensku heyi í félagsheimili Þróttar í Laugardalnum um helgina. Vel mönnuð hljómsveit tryggir gestum dansvænan takt og með sveitinni troða upp meðal annarra Helgi Björnsson, Hildur Vala, Böddi Reynis úr Dalton og Halldór Gylfason úr hljómsveitinni Geirfuglum. Jón ætlar einnig að taka lagið en hann þekkir sveitaballið inn og út eftir að hafa þrætt fjöll og firði áður fyrr með þekktum sveitaballahljómsveitum.
Sveitaböllin helsta tekjulind tónlistarfólks
„Ég náði alveg góðum kafla með Bítlavinafélaginu, Nýdönsk og Sálinni fyrst. Þar á undan var fólk að fylla Aratungu fyrir austan fjall, þúsund manns og svo fóru menn í hljómsveitinni saman til Köben að kaupa sér föt. Það var ekki einu sinni vaskur tekinn af miðanum. Menn borguðu bara dyravörðunum og lögreglunni og fóru svo til útlanda og óðu í peningum,“ segir Jón um sveitaböllin forðum. Helsta tekjulind tónlistarfólks kom af téðum sveitaböllum, dansleikjum í félagsheimilum víða um land en í dag er frekar að fólk haldi tónleika. „Sem hentar manni mjög vel þegar maður er hættur að nenna að spila til klukkan fjögur á nóttinni. Í mörg ár þá fór maður ekki í sumarfrí því þetta var bara eins og fara á sjó. Það var ofboðslega gaman að hafa upplifað þetta. Þarna var allur aldur saman kominn að dansa. Maður var staddur í einhverju félagsheimili úti á landi og maður leit í kringum sig og hugsaði bara „Kemur einhver á þetta ball?“. Maður sá ekki hús. Svo um miðnætti þá var bara eins og fólk kæmi upp úr jörðinni og allt í einu voru bara um 700-800 manns,“ segir Jón Ólafsson.
Það var þó ekki alltaf dans á rósum og ekki sjálfgefið að það væri fullt hús. „Einu sinni átti Nýdönsk að spila á Breiðabliki á Snæfellsnesi, klukkan var orðin eitt og það var enginn kominn, þannig að við ákváðum bara að pakka niður. Við tókum allt saman og keyrðum bara í bæinn. Svo á leiðinni til baka mættum við fullt af bílum sem voru á leiðinni á ballið,“ segir Jón um eftirminnilegt atvik úr bransanum. „Ég var ekki að segja að það hefði orðið fjölmennt, svona 70-80 manns sem ætluðu að fara að skemmta sér þarna. Þetta er eiginlega versti fjöldinn, þegar það koma það margir að maður verður nú að spila en samt það fáir að maður veit að tap verður á ballinu. En þú spilar samt til klukkan fjögur. Það var skrýtið að sjá bílastrauminn mæta okkur,“ rifjar Jón upp.
Pípandi falskur um allt internet
„Ég get alveg sagt það að ég er svo feginn að það var ekki til internet þegar maður var á þessum böllum,“ segir Jón og efast ekki um að virkir í athugasemdum hefðu sitthvað að segja um snemmbúna aflýsingu í Breiðabliki forðum. „Maður var ekkert alltaf besta útgáfan af sjálfum sér. Það kom alveg fyrir að fólk birtist í salnum með myndatökuvél. Þá var dyravörður fenginn til að taka búnaðinn af viðkomandi. Maður vildi alls ekki að það væru myndir af manni í umferð, rammfölskum að spila Danska lagið klukkan hálftvö í vondri lýsingu. Núna ræður maður ekki neitt við neitt og maður er örugglega pípandi falskur um allt internet,“ segir Jón.
„Við ætlum að gera þetta í félagsheimili Þróttar í Laugardalnum á laugardagskvöldið,“ segir Jón sem er sannfærður um að hægt sé að skapa góða sveitaballastemningu í miðri borg. „Núna langar okkur að stækka þetta aðeins. Við ætlum að gera það sama í fyrra þegar þeir bræður Gunnar og Ásmundur Helgasynir fóru út á land og komu til baka með svona heybagga. Það verða þarna heybaggar út um allt og hey á gólfinu,“ segir Jón og rifjar það upp að heyið hafi gefist vel í fyrstu sveitaballatilraun þeirra fyrir ári. „Svo verðum við með hljómsveit og plötusnúð, fréttamanninn Jóhann Bjarna Kolbeinsson. Hann hefur verið plötusnúður á Bræðslunni alveg frá byrjun held ég. Svo koma Helgi Björns, Böddi Dalton og Hildur Vala, hún mun syngja þarna en hún hefur nú ekki sungið mikið á böllum frá því með Stuðmönnum fyrir löngu. Svo tek ég kannski Þrisvar í viku eða eitthvað,“ segir Jón og lofar einnig gæða hljóð- og ljósabúnaði. Fátt á eftir að minna á félagsheimili íþróttafélags.
Óskrifuð lög að sungið sé um Nínu
Allt önnur stemning og allt annað lagaval ríkir á sveitaballinu en hinum hefðbundnu tónleikum. „Við erum að fara að spila lög sem við myndum aldrei annars spila. Seinna meir með Start, við tökum það. Sigurgeir Sigmunds, gítarleikari Start og Gildrunnar, spilar með. Allt verður gert til að fá fólk til að syngja með. Dóri Gylfa söngvari Geirfugla ætlar að syngja Neun und neunzig luftballons með Nenu. Við erum ekkert búin að æfa ennþá. Þetta eru svo mörg lög sem við þurfum að æfa þannig að ég er búinn að finna það út að það er best að gera það samdægurs. Þá situr þetta enn í minninu frá því um morguninn. Svo fáum við Helga Björns og ég er ótrúlega ánægður að fá hann til að taka sín lög sem hafa fylgt honum í gegnum tíðina. Svo verðum við að taka Nínu, því alls staðar sem saman koma fleiri en þrjátíu manns þá eru óskrifuð lög að maður verður að taka Nínu,“ segir Jón Ólafsson sem ásamt félögum sínum í Þrótti í Laugardal undirbýr alvöru sveitaball í dalnum.