Shinovene Immanuel, blaðamaður hjá The Namibian, segir að það sé afa fáttítt að ráðherrar segi af sér vegna spillingarmála án þess að hafa hlotið dóm. Sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra Namibíu sögðu af sér í morgun vegna ásakana um að hafa þegið greiðslur frá Samherja í skiptum fyrir kvóta.

 

Sagt var frá því í Kveik og Stundinni í gærkvöld að Samherji hefði síðustu ár greitt háttsettum mönnum í Namibíu og venslamönnum þeirra meira en milljarð króna til að komast yfir kvóta þar í landi. Þeirra á meðal eru ráðherrarnir tveir sem sögðu af sér í morgun. Í tilkynningu frá fjölmiðlafulltrúa forseta landsins segir að í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla hafi forsetinn óskað eftir fundi. Ráðherrarnir átti sig á alvarleika málsins og hafi þess vegna sagt af sér. Shinovene Immanuel, blaðamaður hjá The Namibian, sem líkt og Kveikur og Al Jazeera fékk aðgang að gögnum sem var lekið til Wikileaks, segir að ásakanir um spillingu á hendur kjörnum fulltrúum séu ekki óalgengar í Namibíu. En afsögn ráðherranna sé þó sérstök. „Í það minnsta í valdatíð núverandi stjórnar er þetta í fyrsta sinn sem ráðherra hefur sagt af sér eftir ásakanir um spillingu án þess að fara fyrir dóm,“  segir Immanuel.

Umfjöllun Kveiks dreift víða sem sönnun

Þetta hefur verið sett í samhengi við komandi þingkosningar í Namibíu sem fara fram eftir aðeins tvær vikur. Immanuel segir forsetann hafa vitað af málinu svo mánuðum skipti. „Samkvæmt mínum skilningi hafði honum verið gert viðvart. Og fyrr á þessu ári held ég að ríkissaksóknari hafi gert forseta grein fyrir að ráðherrarnir væru flæktir í þetta.“ Hann segir að um fátt annað sé rætt á kaffistofum landsins og ekki síður á samfélagsmiðlum. „Þetta er stærsta fréttin í öllum fjölmiðlum í dag. Myndbandinu frá fréttastofunni þinni hefur verið deilt á WhatsApp og fleiri miðlum sem sönnun fyrir framferði ráðherranna. Fólk byrjaði að deila þessu snemma í morgun. Ég veit ekki hvar fólk fann myndbandið, líklega á Twitter eða eitthvað, en því er deilt um allt hérna.“