„Maður hefði ekki trúað því að þetta gæti gerst," segir Andri Snær Magnason rithöfundur um óvissuástandið sem ríkir í heiminum vegna kórónuveirufaraldursins. Fresta þarf flestum viðburðum vorsins, meðal annars frumsýningu á nýrri heimildarmynd í leikstjórn Andra Snæs sem fjallar um geðhvörf og gerist í Nepal.

Íslendingar eru að upplifa skrýtna og erfiða tíma í þeim heimsfaraldri sem nú geisar. Ríkjandi samkomubann hefur þær afleiðingar að verlsanir, barir, listasöfn og jafnvel skólar eru að leggja niður störf og landið allt að leggjast í dvala líkt og stór hluti heimsins. Flestir kjósa að halda sig heima við að mestu til að forðast smit auk þess sem fyrirhuguðum listaviðburðum vors og jafnvel sumars hefur verið frestað eða aflýst. Þeirra á meðal er frumsýning á nýrri heimildarmynd sem Andri Snær Magnason leikstýrði ásamt Anni Ólafsdóttur. Þriðji póllinn nefnist myndin sem fjallar um geðhvörf með fílum og söngvum, samkvæmt leikstjóranum. Myndin hefur verið í vinnslu í þrjú ár og til stóð að frumsýna afraksturinn á þriðjudag en ekkert varð af þeim áformum eins og gefur að skilja. „Þetta er auðvitað meira tjón fyrir þá sem eru búnir að æfa leikrit eða slíkt. Við getum geymt myndina þar til heimurinn fer aftur af stað,“ segir Andri Snær í samtali við Mannlega þáttinn á Rás 1. 

Fílaprinsessan í Nepal fékk innblástur frá Högna

Anna Tara Edwards er íslensk kona sem ólst upp í frumskógum Nepals innan um tígrisdýr og nashyrninga. Þegar móðir hennar veiktist af geðhvörfum, sem drógu hana loks til dauða, sundraðist fjölskyldan. Upp úr tvítugu greindist hún sjálf með sama sjúkdóm. Það varð henni innblástur þegar tónlistarmaðurinn Högni Egilsson steig fram og greindi frá sínum veikindum. Hugrekki Högna veitti henni styrk til að stíga sjálf fram og hún efndi í kjölfarið til geðheilsuvakningar í Nepal, opnaði sjálfshjálparlínu og hélt styrktartónleika í Katmandú.

Anna Tara hafði samband við Högna og bað hann að koma fram á tónleikunum og Högni hringdi í Andra Snæ og Anni og bað þau að fylgja sér til Nepals og mynda tónleikana. Þau slógu til. „Þetta var með svona viku fyrirvara en ég hafði ekkert að gera þá heldur svo úr þessu verður rosalega stór, falleg og draumkennd mynd,“ segir Andri Snær stoltur. Myndina kallar hann ferða- og vináttusögu Högna og Önnu sem deila sögu sinni og reynslu af veikindunum. „Ýmislegt gerist á leiðinni og svo fylgir sagan klassískri för hetjunnar,“ segir Andri. „Fílaprinsessan er í vanda. Hún er undir álögum, sem eru þessi geðhvörf, og eina leiðin til að aflétta skömminni er að segja nafnið á óvættinum svo hátt að allir í konungsríkinu heyra.“ Til að magna rödd sína nýtur prinsessan liðsinnis hetju úr norðri, Högna, sem var búin að aflétta sinni skömm og hvetur hana til að gera það sama. „Þetta er draumkennd mynd en líka sár, alvarleg og fyndin. Við teljum að hún hafi bíóleg element líka þó þetta sé heimildarmynd.“

Var að skrifa um Himalaja þegar Högni hringdi

Himalajafjöllin spila stórt hlutverk í myndinni en þau eru einnig umfjöllunarefni Andra Snæs í bókinni Um tímann og vatnið sem kom út fyrir síðustu jól. Hann áttaði sig á því þegar hann var langt kominn í umfjöllun um fjallgarðinn að hann þyrfti helst að fá tækifæri til að berja hann augum sjálfur til að ljúka kaflanum. Það var nánast eins og örlögin hefðu gripið í taumana þegar símtalið frá Högna barst. Önnu Töru þekkti Andri Snær líka frá fornu fari en hún er að hans sögn stór örlagavaldur í lífi hans. Hún var hluti af hópnum sem flutti Dalai Lama til landsins svo það var í raun í gegnum hana sem hann fékk tækifæri til að taka kærkomið viðtal við Tenzin Gyatso, núverandi Dalai Lama, á Íslandi og Indlandi. Bókin kom út og fékk góðar viðtökur en sem fyrr segir er frumsýningu myndarinnar frestað í bili. Andri Snær segir ómögulegt að segja til um hvenær og með hvaða sniði frumsýning verði enda engar fjöldasamkomur leyfilegar á næstunni. Aldrei hafi verið eins erfitt að sjá fyrir sér hvar heimurinn verði eftir tíu mánuði og hvort ástandið vari í nokkra mánuði eða ár jafnvel.

Afleiðingar loftslagsbreytinga mun verri en ekki sömu viðbrögð

Loftslagsmálin hafa verið Andra Snæ mjög hugleikin og fjallar hann ítarlega um þau í bókinni og hvert við stefnum ef fer sem á horfir. Í því samhengi segir hann viðbrögð heimsins við kórónuveirunni nokkuð áhugaverð, í samanburði við viðbrögð við loftslagsbreytingum sem komi til með að hafa mun meiri og verri afleiðingar. Vísindin séu jafn borðleggjandi í báðum tilfellum. „Læknavísindin eru að segja frá þessari veiru og afleiðingarnar koma fram eftir viku, ef þú færð veiruna ertu veikur eftir viku. En það sem loftslagsvísindin hafa verið að rannsaka og mæla eru jafn föst vísindi en þar eru afleiðingar sem koma fram á miklu lengri tíma,“ segir Andri Snær. „Það er eins og við eigum erfitt heimspekilega með að samsama okkur árinu 2070 og því sem kemur fram á miklu alvarlegri hátt en ein veira innan líftíma okkar barna.“

Allir dæmdir í tveggja mánaða sumarbústaðaferð með fjölskyldunni

Heimsbyggðin sé að upplifa ótrúlega atburði og heimurinn sjálfur í raun kominn í allsherjar pásu. „Mér fannst óhugsandi að ég myndi lifa það að það yrði slökkt á heiminum. Maður hefði ekki trúað því að þetta gæti gerst," segir Andri Snær. Og þó að allir finni fyrir þessum ótrúlegu breytingum eigi margir enn erfitt með að átta sig á því almennilega hvað sé að gerast. „Ég held við séum ekki farin að skilja hve mikil félagsleg og pólitísk áhrif verða af þessu. Maður er varla að geta greint þetta sjálfur.“ 

En það má líta á björtu hliðarnar samkvæmt höfundinum og nýta tímann til að betra sig og styrkja samband við sjálfan sig og sína nánustu. „Nú er tími þar sem allir horfa inn á við. Kannski verður þetta hollt fyrir okkur á einhvern hátt. Maður verður að reyna að sjá það jákvæðasta úr þessu að þessi hugsanlega tveggja mánaða sumarbústaðaferð, sem allir eru dæmdir í, skili einhverri dýpt inn í okkar fjölskyldur.“

Rætt var við Andra Snæ Magnason í Mannlega Þættinum.