Lifrarbólgusmituð kona, sem fær ekki byltingarkennd lyf, segist vilja öðlast líf, eftir 32 ára veikindi. Ríkislögmaður segir engu skipta fyrir rétt hennar að hún smitaðist á íslensku sjúkrahúsi.

Fanney Björk Ásbjörnsdóttir, sem býr í Vestmannaeyjum, smitaðist af lifrarbólgu C við blóðgjöf á sjúkrahúsinu þar eftir barnsburð árið 1983. Hún hefur verið heilsuveil æ síðan, en sjúkdómurinn var ekki greindur fyrr en hátt í 30 árum eftir blóðgjöfina.

Nú stendur hún í málaferlum við ríkið, því hún fær ekki nýtilkomin lyf sem rannsóknir benda til að geti læknað langt yfir 90% sjúklinga á tólf vikum. Meðferðin kostar hátt í tíu milljónir króna. Rætt er við Fanneyju í sjónvarpsfréttinni hér að ofan.