Tónlistarmaðurinn góðkunni, Prins Póló, hefur tekið ofan kórónu sína og smellt á sig jólasveinahúfu. Á aðventunni kemur hann fram undir nafninu Prins Jóló og heldur jólatónleika líkt og síðustu ár. Í tilefni tíu ára afmælis Prinsins dembir hann sér einnig í jólabókaflóðið með bókinni Fölskum minningum og samnefndri plötu.

Það var nostalgískur Prins sem fór yfir gamla harða diska, lög, myndir, skissur og texta og valdi efni í bókina Falskar minningar. Um er að ræða yfirlitsbók um tónlistamanninn Svavar Pétur, sem flestir þekkja sem Prins Póló, en í bókinni er farið yfir tíu ára feril tónlistarmannsins í máli og myndum. „Tíminn hefur flogið. Þegar ég uppgötvaði að Prinsinn er orðinn tíu ára ákvað ég að hafa samband við Forlagið og spyrja hvort þau myndu vilja koma að málinu. Úr varð að þau samþykktu að gefa út þessa bók,“ segir Svavar stoltur og sýnir þáttastjórnendum Síðdegisútvarpsins á Rás 2 gripinn. „Þetta er grafískt yfirlit yfir sögu Prins Pólós og sagan er orðin löng.“

Það hefur sannarlega gengið á ýmsu á þessum tíma eins og glögglega má fræðast um í verkinu og margir koma við sögu á glæstum ferli Svavars. Hirðin er stór og í henni eru fjöldinn allur af hljóðfæraleikurum og upptökustjórum. 

Eins og flestir hafa tekið eftir á hljómplatan undir högg að sækja. Tónlist er langmest gefin út á stafrænu formi og það heyrist nánast til undantekninga að áþreifanlegur geisladiskur eða vínylplata fylgi útgáfunni. Prins Póló bendir á að með þessari þróun glatist ákveðinn hluti af upplifuninni sem áður fylgdi því að kaupa sér plötu. „Í þessum stafræna heimi, þegar maður velur tónlist með vísifingri á glerskjá, þá vantar svo mikla sögu. Þú veist hver listamaðurinn er en ekkert meira. Þú ert ekki með textann, þú veist ekki hver hljóðritaði og ekki hver spilaði, þú veist ekki neitt,“ segir hann. Bókin sé hans leið til að bæta þennan missi hjá hlustendum sínum. 

Samhliða bókaútgáfunni sendir Prins Póló frá sér samnefnda hljómplötu, Falskar minningar, sem inniheldur úrval laga hans í hátíðarútsetningu og fylgir eintak af plötunni hverju keyptu eintaki af bókinni. Platan er þó ekki enn komin út en Svavar segir að hún sé væntanleg fyrir útgáfuhóf bókarinnar sem haldið verður á fimmtudagskvöld á Röntgen Hverfisgötu. „Ég biðst afsökunar til þeirra sem eru búnir að kaupa bókina og eru að reita af sér hár og skegg af óþreyju en bendi á að platan mun birtast á heimasíðu Forlagsins á fimmtudag. Þá er formlegur útgáfudagur,“ hughreystir hann spennta kaupendur og minnir á að á aðventunni sé einmitt viðeigandi að sýna biðlund.

Það er mikið um að vera hjá Prins Póló og konunglegri hirð hans næstu daga en hann er á leið til Akureyrar þar sem hann treður upp á Græna hattinum með jólahúfuna á höfði. Þaðan heldur hann til Snæfellsness en hann slaufar jólatúrnum í Gamla bíói í Reykjavík með tónlistarveislu og jólaballi.

Rætt var við Prins Póló í Síðdegisútvarpinu og má hlýða á viðtalið og jólalag Prins Pólós í nýrri útsetningu í spilaranum efst í fréttinni.