Upplýsingaröskun svo sem falsfréttir, einhliða málflutningur og samfélagsmiðlar gera það að verkum að meiri pólarisering verður í samfélaginu. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar segir að það hafi gerst í Bandaríkjunum og fyrstu niðurstöður í Evrópukosningunum bendi til þess að það sé lika að gerast í Evrópu
Breytt valdahlutföll í Evrópu
Sagt var frá því í Speglinum í síðustu viku að fyrirtæki sem sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu hafi afhjúpað 500 gervisíður á Facebook sem notaðar voru til að breiða út falskar fréttir og hatursorðræðu hægri öfgamanna í Evrópu. Markmiðið með þeim var að hafa áhrif á kosningar til Evrópuþingsins. Meira en fimm hundruð milljarðar flettinga voru á síðunum áður en þær voru teknar niður og þær höfðu breitt út falskar upplýsingar og boðskap í fjölda ára.
Níðurstöður þingkosninganna í Evrópu sýna að valdahlutföll þar eru að breytast. Miðjuflokkar töpuðu töluverðum fjölda þingsæta. Þjóðernissinnar og popúlistar bættu annars vegar við sig og umhverfisverndarsinnar hins vegar.
Upplýsingaröskun og falsfréttir valda pólariseringu
Elfa Ýr segir að mikil umræða hafi verið um hugsanleg áhrif upplýsingaröskunar eða upplýsingamengunar í aðdraganda Evrópukosninganna.
„Ég held að það sé svolítið erfitt að segja til um það, svona strax á eftir, hvernig þetta hefur litast. Það sem við vitum hins vegar er það að svona upplýsingaröskun eða þegar verið að hafa áhrif með röngum upplýsingum á kjósendur þá virkar það ekki þannig að fólk skipti um skoðun og fari að kjósa einhvern annan flokk. Það virkar þá frekar þannig að það sé verið að reyna að koma í veg fyrir að einhverjir hópar kjósi. Það virðist ekki vera niðurstaðan núna vegna þess að kosningaþáttakan er sú mesta í 20 ár í þessum þingkosningum. En það sem við vitum líka að svona upplýsingaröskun gerir er að henni er ætlað að auka klofning meðal fólks í samfélaginu og líka að minnka traust almennings á samfélagslegum stofnunum og réttarríkinu. Það náttúrlega vitum við ekki og sjáum ekki fyrr en síðar hvort þessar herferðir sem áttu sér stað hafa þau áhrif.
En eru ekki einmitt vísbendingar í niðurstöðunum um að það sé aukinn klofningur í samfélaginu? Fyrstu niðurstöður virðast benda til þess. Miðjuflokkarnir fengu miklu verri kosningu og það er það sem við vitum, að upplýsingaröskun, og í raun og veru bara samfélagsmiðlar, gera það að verkum að það verður meiri pólarisering í samfélaginu. Þannig að það sem við erum búin að vera að sjá í Bandaríkjunum virðist þá líka vera að hafa þessi sömu áhrif í Evrópu.“
Evrópusambandið gaf út leiðbeiningar
Elfa segir að fyrir kosningarnar til Evrópuþingsins hafi Evrópusambandið gefið út leiðbeiningar um hvernig hægt væri að sporna gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Til dæmis voru ríki hvött til að leggja meiri fjármuni í tæki og tól til greiningar á því hvernig rangar upplýsingar dreifast. Í öðru lagi að finna út hvaða notendareikningar væru notaðir til dreifa fölskum upplýsingum, efla þurfi miðlalæsi fyrir alla aldurshópa og í fjórðalagi að rekja kaupendur á pólitískum auglýsingum.
Ný rannsókn sem systurstofnun Fjölmiðlanefndar í Noregi lét gera sýnir að ekki síst þurfi að efla miðlalæsi hjá fólki 60 ára og eldra.
„Það kannski skortir á það að fólk geri sér grein fyrir því hvaðan þessar upplýsingar eru að koma, hverjir standa á bak við þetta, eru þetta réttar upplýsingar sem einhver annar miðill hefur verið að miðla s.s.frv. og líka þessi munur á milli þess hvað er ritstjórnarefni og einhverskonar auglýsing“
Elfa Ýr segir að Íslendingar fylgist vel með því sem er að gerast og taki þátt í bæði evrópsku og norrænu samstarfi á þessu sviði.
„Það er ýmislegt sem bendir til þess, t.d. í þessum kosningum til Evrópuþingsins, að þetta hafi verið meira vandamál í stærri ríkjunum heldur en þeim minni. Alla vega það sem ég var að skoða í morgun. Þannig að svona t.d. það að skoða svona tæknilegar útfærslur um það hvernig upplýsingar dreifast o.s.frv. ætti að vera hægt að gera í svona litlu samfélagi eins og Íslandi heldur t.d. í þessum stóru ríkjum Evrópu.“