„Hvítur, hvítur dagur hefur það umfram margar íslenskar kvikmyndir sem gerast í landsbyggðum Íslands að mér finnst þetta vera samtímasaga og heiðarleg speglun á því samfélagi sem við lifum í,“ segir Þóra Tómasdóttir blaðamaður og upplýsingafulltrúi um nýjustu mynd Hlyns Pálmasonar.
Hvítur, hvítur dagur er önnur kvikmynd Hlyns Pálmasonar, sem sló í gegn með frumraun sinni Vetrarbræðrum, sem var gerð í Danmörku og vann til níu verðlauna á dönsku kvikmyndaverðlaununum í fyrra. Í Hvítum, hvítum degi leikur Ingvar E. Sigurðsson Ingimund, lögreglustjóra og ekkil sem reisir hús fyrir dóttur sína og dótturdóttur. Ingimundur verður smám saman heltekinn af grunsemdum um að eiginkona hans hafi verið honum ótrú.
Fjallað var um myndina í Lestarklefanum, umræðuþætti um menningu og listir.
Tímalaus saga
„Ég fór á myndina með vott af tortryggni,“ segir Þóra Tómasdóttir blaðamaður. Henni leist ekki á að sjá enn aðra myndina um lopapeysuklæddan, tilfinningabældan karl á miðjum aldri. „Þrátt fyrir að myndin falli í þá kategóríu sem mín kynslóð, strákar á mínum aldri hafa portretterað í sínum myndum undanfarinn áratug – lopapeysuklæddur karlmaður í sveitum landsins að kljást við eitthvað – þá fannst mér þetta frábær mynd. Hann komst hundrað prósent upp með þetta.“
Þóra hrósar Ídu Mekkín sérstaklega fyrir frammistöðuna í myndinni. Hún er dóttir Hlyns Pálmasonar leikstjóra og fer með hlutverk barnabarns Ingimundar. „Hún er geggjuð í myndinni og Ingvar E. er upp á sitt allra besta, myndmálið og leikstjórnin er frábær.“
Hvítur, hvítur dagur er að mati Þóru tímalaus saga. „Mér finnst hún hafa það umfram kannski margar íslenskar kvikmyndir sem gerast í landsbyggðum Íslands að mér finnst þetta vera samtímasaga og heiðarleg speglun á því samfélagi sem við lifum í. Ég upplifi stundum tengslarof við kvikmyndir þar sem karlarnir eru komnir í lopapeysur og drekka kaffi og hlusta á hádegisfréttir. Þar erum við komin í einhvers konar grímuball, sem ekki veruleikinn sem þessi kynslóð ólst upp við heldur frekar kynslóð foreldra okkar, afa og ömmu. Mér finnst þetta vera falleg, sönn, heiðarleg og spennandi saga úr samtímanum.“
Mikil saga í myndmálinu
Halldóra K. Thoroddsen rithöfundur segir að henni hafi kviðið fyrir því að fara á myndina og hún hafi reynst henni erfið áhorfs, „en ég sá hvað hún var góð,“ bætir hún við. „Þetta er falleg mynd. Myndmálið segir mjög mikla sögu og stíllinn er held ég mjög frumlegur og þetta er áræðinn leikstjóri. Til dæmis er framrásin iðulega hvíld með mjög atburðasnauðum löngum skotum, svolitlum núvitundaræfingum þar sem maður hvílist, en svona mynd stendur og fellur með persónusköpun. Það lukkast þeim félögum Ingvari og Hlyni mjög vel. Manni finnst að þeir hafi skapað mann af hold og blóði og blásið í hann lífi. Manni finnst að hann sé sálfræðilega réttur og trúverðugur.“
Þórsteinn Sigurðsson ljósmyndari er hrifinn af handbragði myndarinnar en að hans mati er handritið veikasti hlekkur hennar. „Ég væri til í mynd eftir Hlyn sem hann leikstýrir en eftir öðru handriti,“ segir hann. Myndatakan, leikstjórnin og leikurinn sé til fyrirmyndar og myndlistarleg nálgun Hlyns að kvikmyndaforminu sé frískandi. „Mér finnst mjög gaman að sjá myndlistarmann vinna bíómynd í fullri lengd með svona umgjörð. Það er eitthvað sem ég hef ekki séð áður.“