Forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða telur að þar verði auðveldara að takast á við samdrátt í ferðaþjónustu en víða annars staðar. Ferðamannatímabilið á Vestfjörðum sé enn stutt og því hafi ekki verið gerðar viðamiklar fjárfestingar.
Slæmt veður, HM og verðið sköpuðu skellinn
Eins og víðar á landsbyggðinni fundu fyrirtæki í ferðaþjónustu á Vestfjörðum fyrir samdrætti í fyrra. „Við teljum að það hafi verið vegna þess að veðrið var mjög leiðinlegt og svo vorum við í samkeppni við HM og gengi krónunnar okkur ekki hagstætt. Svo við fórum í markaðsátak í vetur og það er að skila sér mjög vel til okkar,“ segir Nanný Arna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Borea Adventures á Ísafirði. „Sumarið í ár lítur mjög vel út. Við sjáum mikla aukningu á dagsferðalöngum og lengri spennandi ferðum.
Spara við sig í gistingu
Ferðamenn á Ísafirði í dag eru flestir af skemmtiferðaskipi og þeir sem sinna skipunum finna ekki fyrir samdrætti enda hefur skipakomum fjölgað. Helst virðast þeir sem bjóða hótelgistingu finna fyrir samdrætti í ár en þó minni en í fyrra. „Þá vorum við með fimmtíu prósent nýtingu miðað við toppárið okkar sem var 2015. En sumarið í sumar er lakara, þegar á heildina er litið miðað við í fyrra,“ segir Birna Mjöll Atladóttir, hótelstýra á Hótel Breiðuvík.
Gistimöguleikum fjölgað
Samkeppni aukist mikið, Hótel Breiðavík var til að mynda lengi vel einn af fáum gististöðum á sunnanverðum Vestfjörðum. Ferðavenjur hafa einnig breyst. „Þetta eru mikið camper-bílar og húsbílar og fólk sem er með mikið með sér svo það hefur lítið niður á svona stað að sækja,“ segir Birna.
Fáar stórar fjárfestingar
Þótt gistirýmum og afþreyingarfyrirtækjum hafi fjölgað smám saman hafa ekki verið margar stórar fjárfestingar í tengslum við ferðaþjónustu á Vestfjörðum. „Við erum ennþá með mjög stutt ferðamannatímabil. Þannig að það er erfitt að fá fjárfesta til að fjárfesta á svona stað þar sem „seasonið“ er ennþá svona stutt,“ segir Díana Jóhannsdóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða.
Fáir ferðamenn á Vestfjörðum
Vestfirðir eru með mjög litla hlutdeild í fjölda ferðamanna á landinu. Talið er að einn tíundi ferðamanna haldi á Vestfirði. „Við eigum helling inni og við náum því bara með góðri markaðssetningu og góðu umtali,“ segir Nanný Arna.
Telur fall WOW air hafa lítil áhrif
Fáir þeirra sem fréttastofa náði tali af telja að áhrif af falli WOW air nái mikið til Vestfjarða. „Þetta eru ferðamenn sem koma til Vestfjarða eru ákveðnir ferðamenn, landkönnuðir sem eru búnir að ákveða að þeir ætli að skoða landið, þeir eru minna þessir kúnnar sem eru að koma til að stoppa stutt. Þannig að ég held að það hafi lítil áhrif,“ segir Nanný Arna.
Telurðu að Vestfirðir gætu komist hjá þeim skelli sem er spáð. „Ég held að við komust ekki hjá því en ég held að við séum betur í stakk búin til að takast á við af því það hefur ekki verið farið í jafnmiklar fjárfestingar hér og annarsstaðar,“ segir Díana Jóhannsdóttir, hjá Markaðsstofu Vestfjarða.