Framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og þáverandi stjórnarformaður Vinnumálastofnunar stofnaði aflandsfélag árið 2003 í því skyni að leyna fjárfestingum í dönsku fyrirtæki. Lán sem íslenskt félag hans veitti Tortóla-félaginu vekur spurningar að mati fyrrverandi ríkisskattstjóra. Eftir að hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins tók hann þátt í kaupum á BM Vallá af Arion banka. Þingmenn Framsóknar hafa gagnrýnt yfirtöku bankans á félaginu harðlega.
Þetta kemur fram í Panama-skjölunum svokölluðu. Kastljós fjallaði um efni þeirra í kvöld í samstarfi við Reykjavik Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna og þýska blaðið Süddeutsche Zeitung.
Hrólfur Ölvisson framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn um árabil. Rekið flokksblaðið Tímann, setið í bankaráði Búnaðarbankans og stjórnum opinberra fyrirtækja. Meðal annars sem stjórnarformaður Vinnumálastofnunar í tæpan áratug frá 1998 til 2007.
Barðist gegn leynd
Á þeim tíma stóð Vinnumálastofnun í ströngu vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Erlendar starfsmannaleigur voru taldar reyna að koma sér hjá skattgreiðslum og reglum á íslenskum vinnumarkaði. Kallaði Hrólfur meðal annars eftir því að lög yrðu sett til að ná utan um svarta atvinnustarfsemi sem þrifist í skjóli leyndar sem umlukti starfsemi starfsmannaleiga og tók undir með ráðherra sem sagði að svindl yrði ekki liðið á íslenskum vinnumarkaði.
Stofnaði leynifélag
Þetta sama ár stofnaði Hrólfur félagið Chamile Marketing í skattaskjólinu Tortóla. Uppsetningin er hefðbundin - starfsmenn Mossack Fonseca skráðir stjórnarmenn og stjórnendur. Prókúra félagsins var á nafni Hrólfs og hlutabréf Tortóla-félagsins skráð á félag í eigu Hrólfs og viðskiptafélaga hans hér á íslandi.
Dönsk fjármögnun
Hrólfur var á þessum tíma einn þriggja eigenda félagsins Eldberg ehf, í gegnum móðurfélagið Jarðefnaiðnað ehf. Fyrirtækin stóðu fyrir söfnun og útflutningi á vikurefnum við Heklurætur sem síðan skipað var út frá Þorlákshöfn. Tortóla-félaginu var ætlað að fela viðskipti þessara íslensku félaga í Danmörku.
Það átti að gera þannig að Eldberg lánaði Chamile Marketing á Tortóla 12 milljónir króna, vaxtalaust til 5 ára. Milljónirnar 12 notaði Chamile marketing svo til að fjárfesta í danska fyrirtækinu Scancore. Í lánasamningi milli félaganna segir orðrétt:
„Tilgangurinn er að tryggja að nafn Eldbergs eða móðurfélags þess verði ekki skráð í tengslum við fjárfestingar Chamile Marketing.”
Í ársreikningi Eldbergs ehf. er hvergi getið um þessa sérstöku lánveitingu. Í skriflegu svari Hrólfs á dögunum, svaraði hann aðspurður um hvort íslenska félaginu hafi verið heimilt að lána fé með þessum hætti til aflandsfélag í sömu eigu:
„Það varðar ekki við íslensk lög eða í öðrum löndum, svo kunnugt sé, að lána fjármuni án vaxta.”
Í íslenskum skattalögum er hins vegar ákvæði sem takmarkar slík lán. Og á síðustu árum hefur verið vísað til þess í sambærilegum málum, meðal annars í úrskurðum skattayfirvalda. Indriði Þorláksson fyrrverandi Ríkisskattstjóri segir lánið vekja spurningar.
„Þannig ég myndi telja að til dæmis að í svona tilviki þá ætti að telja lánveitanda, íslenska fyrirtækinu eðlilega vexti til tekna og þar með skattleggja hér á landi,“ sagði Indriði í Kastjósi í kvöld. Aðspurður um tilgang þess að reisa hömlur við slíkum lánveitingum sagði hann:
„Þetta er einfaldlega til þess gert að koma í veg fyrir að menn nota tengda aðila til þess að komast undan skatti með því að færa hagnaðinn úr einum stað í annan.”
Fjárfesting íslenska félagsins Eldberg, sem einhverra hluta vegna þurfti að fela með þessum hætti, var í dönsku fyrirtæki, Scancore ApS sem Tortólafélagið Chamile keypti 49% hlut í. Scancore var að öðru leyti í eigu annars dansks fyrirtækis, Tegl í Silkiborg í Danmörku. Lánið frá Íslandi til Tortóla rann því beina leið þaðan og til Danmerkur.
Fjárfestingin tapaðist
Í skjölum Tortólafélagsins Chamile frá 2008, kemur fram að félagið eigi þá útistandandi kröfur upp á rúmlega 6 milljónir danskra króna - vegna yfirvofandi gjaldþrots Scancore Aps. Fjármuni sem síðar töpuðust vegna gjaldþrots Scancore í Danmörku. Því skiluðu fjármunirnir sem fóru frá Íslenska félaginu sér aldrei til baka.
Keypti BM Vallá
Hrólfur Ölvisson var ráðinn framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins árið 2010. Samhliða því starfi hefur hann þó tekið þátt í umfangsmiklum viðskiptum í gegnum sömu félög og tengdust Tortóla-félaginu Chamile. Árið 2012 keypti Hrólfur, í félagi við hóp fjárfesta, hluti Arion Banka í BM Vallá sem síðan sameinaðist Björgun og Sementsverksmiðjunni.
Yfirtakan harðlega gagnrýnd
Arion banki hafði þá yfirtekið BM Vallá eftir hrun, en fyrrum eigendur þess, með Víglund Þorsteinsson í broddi fylkingar, hafa sakað bankann og stjórnvöld um lögbrot í tengslum við yfirtöku þess í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það hafa fjölmargir þingmenn Framsóknarflokksins tekið og viljað rannsókn á málinu.
Þingmenn vissu ekki
Fáir þeirra vissu þó að framkvæmdastjóri flokksins væri í hópi þeirra sem keypt hefðu félagið af bankanum, eftir endurskipulagningu þess. Í það minnsta þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem Kastljós hefur rætt við um málið.
Eignar- og stjórnendatengslin eru þó nokkuð flókin. Hrólfur Ölvisson er eigandi ríflega fjórðungs hlutafjár og stjórnarformaður í fyrirtækinu Jarðefnaiðnaði. Það á síðan fjórðungs hlut í fyrirtækinu Íslenskum jarðefnum, þar sem Hrólfur er stjórnarformaður. Það félag á svo félagið Hornstein ásamt norska fyrirtækinu Norcem. Hornstein er móðurfélag Björgunar, BM Vallár og Sementsverksmiðjunnar.
Tilkynnti formanninum um kaupin
Hrólfur er varamaður í stjórn Hornsteins og stjórnarmaður í BM Vallá. Hann sagðist ekki hafa séð ástæðu til að kynna þingmönnum flokksins þessi tengsl sín sérstaklega enda hafi hann ekki talið neina hagsmunaárekstra fólgna í viðskiptunum. Hann hafi hins vegar tilkynnt formanni flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, um þau.
Panamafélag um tryggingar
Í Kastljósi var einnig greint frá öðru aflandsfélagi sem Hrólfur tengist. Það félag, Selco Finance, var stofnað í Panama árið 2003. Tilgangur þess var að halda utan um umboð fyrir bandarískt tryggingafélag sem sérhæfði sig í að tryggja efnafólki bestu fáanlegu meðferð á þarlendum sjúkrahúsum. Umboðið og félagið Selco var stuttu síðar keypt af Vátryggingafélagi Íslands, og við stjórn Panama-félagsins tóku þá Finnur Ingólfsson og Benedikt Sigurðsson fjármálastjóri VÍS.