Fyrsti hluti óperunnar La Traviata eftir Verdi var fluttur á  tónlistarhátíðinni Berjadögum í Ólafsfirði við mikla hrifningu tónleikagesta. Listrænn stjórnandi segir að fagnaðarlátum hafi aldrei ætlað að linna. 

Þetta var í tuttugasta og fyrsta sinn sem tónlistarhátíðin er haldin en í fyrsta sinn sem hún er um verslunarmannahelgi. Hátíðin hófst á fimmtudag og var ýmis konar tónlist í boði eins og íslensk þjóðlög, einsöngur og brasilísk tónlist.

Ólöf Sigursveinsdóttir, framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi hátíðarinnar, segir að á laugardagskvöld hafi verið mörkuð tímamót þegar sviðsuppfærsla á fyrsta þætti La Traviata var flutt í Menningarhúsinu.  

„Það hefur aldrei verið flutt ópera áður í Ólafsfirði og það eru náttúrlega margir staðir á landinu þar sem hefur ekki heyrst kannski þetta stóra úr tónlistarsögunni,“ segir Ólöf. „Í rauninni getum við sagt að sígild tónlist og tónverk tónbókmennta er að nema land á Íslandi enn þá. Þannig að það var magnþrungið augnablik þegar við upplifðum þetta á laugardagskvöldið.“

Ólöf segir að um 30 manns hafi tekið þátt í sýningunni, einsöngvarakór og tónlistarfólk úr fremstu röð. 

„Þar eru einsöngvarar á borð við Elmar Gilbertsson og Sigrúnu Pálmadóttur sem syngja í mjög stórum húsum úti í heimi og eru allt í einu komin hér í Tjarnarborg sem er grand menningarhús í Ólafsfirði. Gott tónleikahús og hljómburðurinn er af þeim gæðum að það er eiginlega ólýsanlegt.“

Ólöf segir að flutningurinn hafi vakið miklar hrifningu tónleikagesta, sem voru hátt í tvö hundruð. Kaffihúsastemning hafi verið í salnum, og óperukórinn að hluta úti í sal. 

„Það var bros á hverju andliti, það voru andvörp í salnum og það voru hróp og köll í lokin og í rauninni fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Ég sem skipuleggjandi er búin að vera að hugsa hvort hægt væri að kalla þetta undrið í Ólafsfirði og get nú eiginlega ekki lýst því hvernig tilfinningar maður var að upplifa þarna. Þetta var mjög sérstakt hreint út sagt.“

Ólöf segir að það hafi aukið á upplifunina að eftir hlé hafi tekið við flutningur á rússnesku efni. Þá hafi Nathalía Druzin Halldórsdóttir mezzósópran sungið rússneskar aríur og Elmar hafi sýnt á sér nýjar hliðar. „Þetta sló allt í gegn. Þetta var alveg með ólíkindum og Ólafsfirðingar, þegar þeir hlusta á tónlist, það hreyfir svo við manni að listamennirnir verða nú kannski bara ekki samir á eftir.“

Verður ópera þá framvegis hluti af dagskrá Berjadaga? „Þetta er allt háð peningum,“ svarar Ólöf og hlær. „Þannig að það er best að hafa sem fæst orð.“