Árlega nýta um fjórtán hundruð manns sér rafræna hreyfiseðla sem læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður ávísar í stað lyfseðla. Maður með sykursýki, sem notar hreyfiseðil, segir að hann fari oftar út að ganga en áður.
Fimm þúsund og þrjú hundruð manns hafa nýtt sér hreyfiseðla frá því þeir voru teknir í notkun 2014.
Guðmundur Grímsson er einn þeirra. Hann hefur aðgang að hreyfiseðlinum í símanum. Og hreyfingin sem hann hefur valið sér í samráði við hreyfistjóra er göngutúr þrisvar í viku.
„Ég er með sykursýki II og læknirinn hvatti mig til þess að fá frekar hreyfiseðil heldur en lyfseðil. Það er ekki svo að ég taki engin lyf en þetta átti að koma í veg fyrir að ég tæki eins mikið,“ segir Guðmundur.
Þegar læknirinn hafði ávísað hreyfiseðlinum hitti Guðmundur sjúkraþjálfara sem er jafnframt hreyfistjóri.
„Og þar er viðtal þar sem geta einstaklingsins til hreyfingar er metin og sett upp raunhæf hreyfiáætlun,“ segir Sigþrúður Inga Jónsdóttir, sem starfar sem hreyfistjóri og sjúkraþjálfari á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Hreyfingin er svo skráð í sérstakt forrit.
„Ef hann nær ekki 70% af áætlun þá fær hann tölvupóst og ég líka. Samskiptin eru þá hvatningin og eftirfylgning er í gegnum tölvupósta og símtöl,“ segir Sigþrúður.
Yfirþyngd er algengasta ástæða þess að fólk fær hreyfiseðil, þá sykursýki II, hár blóðþrýstingur, langvinnir verkir, og þunglyndi.
Markmið með hreyfiseðlum er að fólk hreyfi sig reglulega til frambúðar.
„Það er 72% meðferðaheldni sem þýðir það að þeir eru að mæta í hreyfinguna upp á 72%,“ segir Sigþrúður.
Þeir sem eru samviskusamastir eru þeir sem þjást af kransæðasjúkdómum, krabbameini, beinþynningu, sykursýki II og efnaskiptasjúkdómum.
„Við vitum að hreyfing hefur mikil áhrif á alls kyns lífstílssjúkdóma,“ segir Sigþrúður.
Hreyfiseðlar standi öllum til boða.
„Þetta bætir heilsuna og þetta bætir líðan, bæði líkamlega og andlega líðan,“ segir Sigþrúður.
„Þetta virkar sem hvatning á mig. Ef þetta væri ekki færi ég ekki eins oft út að ganga,“ segir Guðmundur.