Þetta tíðkast ekki og það eru fá dæmi um að forseti Bandaríkjanna lýsi yfir neyðarástandi, nema við sérstakar aðstæður eins og stríðsástand eða annað slíkt. Þetta segir Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún segir þó að forseti Bandaríkjanna hafi sannarlega valdheimild til að grípa til aðgerða sem þessara.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti í dag yfir neyðarástandi vegna þess fjölda fólks sem kemur ólöglega til Bandaríkjanna frá Mexíkó. Hann segir nauðsylegt að byggja strax múr á landamærum ríkjanna.
Hún kom ekki á óvart, yfirlýsing forsetans nú seinni partinn. Þegar í gær bárust fréttir af því að Trump ætlaði að grípa til þessa ráðs til að uppfylla eitt kosningaloforða sinna, að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Loforð forsetans var reyndar að láta Mexíkó borga fyrir vegginn, en því hafa stjórnvöld í Mexíkó staðfastlega hafnað.
Tilraunir forsetans til að fá Bandaríkjaþing til að samþykkja fjármögnun múrsins hafa ekki gengið sem skyldi. Þótt Bandaríkjaþing hafi samþykkt að veita 1,4 milljarða dollara í hindranir á landamærunum dugir það ekki fyrir áformum ríkisstjórnarinnar. Með því að lýsa yfir neyðarástandi fær Trump fjármagn, meðal annars úr sjóðum varnarmálaráðuneytisins.
Leiðtogar Demókrata í báðum deildum þingsins, Chuch Schumer og Nancy Pelosi, segja þessar fyrirætlanir forsetans lögbrot og kalla aðgerðina grófa misnotkun á forsetavaldi. Trump sagðist viðbúinn því að ákvörðunin endi fyrir dómstólum en sagðist bjartsýnn á að niðurstöðurnar yrðu Bandaríkjastjórn í hag.
Ekki eining innan Repúblikanaflokksins
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er einn þeirra sem lýsti yfir stuðningi við ákvörðun Trumps. Það ríkir þó ekki eining innan Repúbliakanaflokksins um ákvörðunina.
Pompeo kom hingað til lands í dag og fundaði með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra. Það er rúmur mánuður síðan þeir funduðu síðast, þeir Guðlaugur Þór og Pompeo.
„Þetta gefur til kynna að Bandaríkin hafi áhuga á meira samstarfi,“ segir Silja Bára.
Nánari umfjöllun um ákvörðun Donalds Trump og Íslandsheimsókn Mike Pompeo má sjá í spilaranum hér að ofan.