Jólasýning Borgarleikhússins að þessu sinni er leikritið Vanja frændi eftir rússneska rithöfundinn Anton Tsjekhov. Leikstjóri verksins er Brynhildur Guðjónsdóttir en ný íslensk þýðing, sú þriðja, hefur nú verið gerð á verkinu. Hana gerði Gunnar Þorri Pétursson, sem nam bókmenntir í Pétursborg og starfar sem fræðimaður og þýðandi.
Vanja frændi var frumsýnt í Listaleikhúsinu í Moskvu árið 1899 og er eitt af stóru meistaraverkum Antons Tsjekhovs (1860-1904), af mörgum talið það skemmtilegasta. Þrátt fyrir að verkið fjalli meðal annars um brostnar vonir og sorg er það stútfullt af húmor og léttleika. Hér takast á mismunandi viðhorf til lífsins. Hugmyndum um vellystingar og græðgi er teflt gegn umhyggju fyrir jörðinni og náttúrunni. Undirliggjandi eru spurningar á borð við: Hvernig eigum við að lifa áfram þegar sársaukafullur sannleikurinn um tilgang okkar og stöðu blasir við? Og: Er allur heimurinn til sölu? Vanja frændi er eitt af fjórum frægustu leikverkum Tsjekhovs (hin eru Mávurinn, Kirsuberjagarðurinn og Þrjár systur), sem var einnig einn af merkustu smásagnahöfundum bókmenntasögunnar. Vanja frændi fer á svið Borgarleikhússins í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur sem stýrði hinni vinsælu sýningu, Ríkharður III eftir William Shakespeare, á síðasta leikári.
„Þetta var glíma,“ segir þýðandinn Gunnar Þorri Pétursson sem er nýkominn úr útlegð í Borgarfirði þar sem hann dvaldi einn með Tsjekhov og Vanja frænda. „Ég er nú eiginlega nýkominn af fæðingardeildinni, og enn á ýmislegt eftir að gerast því nú hefst samstarfið við leikhópinn og leikstjórann, Brynhildi.“ Hann segir að það hafi verið mjög gaman að fást við Anton Tsjekhov, en bætir við að það sé í raun og veru mjög frústrerandi að þýða. „Maður byrjar á því að lesa verkið og dáist að því og hlær og grætur, og svo hefst þýðingarferlið og þá eiginlega eyðileggur maður allt verkið, maður gerir allt verra en það er í upprunalega textanum, og klúðrar öllum bröndurunum, þetta er bara eins og fíll í postulínsbúð. Svo felst þýðingarferlið voðalega mikið í því að líma þetta aftur saman, og komast nær þessari upplifun sem þú verður fyrir þegar þú lest verkið.”
Þetta er í þriðja sinn sem leikritið Vanja frændi er þýtt á íslensku, en áður hafa þýtt verkið þau Geir Kristjánsson og Ingibjörg Haraldsdóttir, og Gunnar hafði þýðingar þeirra til hliðsjónar þegar hann vann sína eigin þýðingu. „Þýðingar byggja á þýðingum, þegar maður er búinn að komast yfir það þá verður það ómetanlegt að hafa einhvern eins og Geir, hann kemur með alls konar litbrigði inn í þetta sem að maður skynjar í hans þýðingu, og Ingibjörg sömuleiðis. Og vonandi endar þetta með því að vera ríkari þýðing fyrir vikið sem ég skila af mér.“
Fallegt en sorglegt að vera manneskja
Prófessor nokkur kemur á sveitasetur látinnar eiginkonu sinnar með seinni konu sína, hina ungu og ómótstæðilegu Jelenu. Dóttir prófessorsins af fyrra hjónabandi og Vanja, bróðir fyrri konunnar, hafa lagt á sig ómælda vinnu í gegnum tíðina við að sinna búinu. En nú er prófessorinn orðinn gamall, hefur allt á hornum sér og hyggur á róttækar breytingar. Örvænting og vonleysi heltekur Vanja því átakamikið uppgjör er óumflýjanlegt. Aðspurður segir Gunnar kjarna þessa fræga verks eiginlega kristallast í kærleikskúlu Ragnars Kjartanssonar, sem á stóð: „Það er fallegt en sorglegt að vera manneskja.“ Setninguna hafði faðir hans, Kjartan Ragnarsson, sagt við hann þegar hann var að leikstýra Tsjekhov „Þetta held ég að sé svolítið kjarninn í verkinu, hvað lífið er fallegt en sorglegt.” Hann bætir því við að Vanja frændi sé mjög fyndið verk. „Svo er líka ákveðin heimspekileg dýpt í því sem er mjög erfitt að ná utan um því Tsjekhov var mjög andsnúinn heimspekilegum kerfum, og hvers konar heildarlausnum.“
Í ljósaskiptunum
Leikritið var eins og áður segir frumsýnt í Listaleikhúsinu í Moskvu árið 1899. „Þetta leikrit er skrifað í ljósaskiptum, þessari stórkostlegu 19. öld í Rússlandi er að ljúka, sem hefst með þessari stórkostlegu skáldsögu Púshkíns, Évgení Ónegin, í bundnu máli, og svo kemur Gogol, Dostójevskí og Tolstoj, og Tsjekhov er náttúrulega hluti af þeirri hefð, en um leið er þetta að klárast, og hans viðbragð er að velja miklu minna form, leikritið og smásöguna, og anti-klímaxið, og hann gerir þetta til þess að veita þessari hefð inn í nútímann.“
Galdur Tsjekhovs
Gunnar Þorri Pétursson fékk fyrr á þessu ári Íslensku þýðingaverðlaunin, ásamt Ingibjörgu Haraldsdóttur, fyrir þýðingu á skáldsögunni Hinir smánuðu og svívirtu eftir Fjodor Dostójevskí sem birtist í tímaritinu Vremya árið 1861. Gunnar segir mjög mikinn mun á því að þýða verk eftir Dostójevskí annars vegar, og Anton Tsjekhov hins vegar, enda afar ólíkir höfundar. „Dostójevskí krefst svo mikils en ég veit svo nákvæmlega hvers hann krefst af mér af því að ég er búinn að stúdera hann svo mikið, en með Tsjekhov, eins og þýsk leikkona sagði við mig þá vantar alltaf svona (og svo gerði hún lítið bil með fingrunum). Ég held að maður eigi að vera með þá tilfinningu þegar maður er að þýða þetta, setningin er sögð eða setningin er þýdd og þér finnst þú skilja hana, en svo smýgur hún úr greipum þér. Og það er þetta sem gerir þetta verk sígilt að það er svo ótrúlega órætt en um leið hárbeitt. Það virkar eins og Tsjekhov sé ekki með bogann jafn hátt spenntan og Dostójevskí eða Tolstoj, en hann er það, og það er sá galdur sem kristallast í þessu verki.”
Langt síðan ég hef fengið kampavín
„Á vegum fárra höfunda virðist leikurum jafn vandratað og á vegum Tsjekhovs,” sagði Eyvindur Erlendsson í erindi um skáldið sem hann flutti í Ríkisútvarpinu árið 1978. „Það er haft við orð að af hverjum hundrað Tsjekhov-sýningum sem settar eru upp séu níutíu og níu misheppnaðar. Það er, ná ekki hjarta áhorfandans.” Og hann bætti við: „Hitt er aftur á móti fullyrt að þessi eina af hundrað sem heppnast sé allrar fyrirhafnarinnar virði.“ Gunnar Þorri segir það gera mann að meiri manni að dvelja lengi með skáldverkum eftir mikla höfunda á borð við Anton Tsjekhov og Fjodor Dostójevskí. Nýja þýðingin kemur út á bók í ritröð Borgarleikhússins og Gunnar Þorri tekur þátt í námskeiði sem Endurmenntun Háskóla Íslands býður upp á þar sem fjallað verður um ýmsa fleti leikritsins Vanja frændi. Þegar Gunnar Þorri er spurður að því hvað sé framundan, nú þegar útlegð hans með Anton Tsjekhov sé lokið, svarar hann að bragði: „Dánarorð Tsjekov voru, það er langt síðan ég hef fengið kampavín, og ég held að það sé sá staður sem ég er á núna.”
Leikritið Vanja frændi eftir Anton Tsjekhov verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur 11. janúar, á afmælisdegi Leikfélags Reykjavíkur. Með hlutverk Vanja fer Valur Freyr Einarsson.
Rætt var við Gunnar Þorra Pétursson í Víðsjá.