Velska tónlistarkonan Cate Le Bon hefur vakið athygli um allan heim á síðustu árum og er nú á leið til Íslands í fyrsta sinn. Hún hóf sinn feril á að syngja á velsku en síðustu plötur hafa verið á ensku. Le Bon er alin upp í sveitinni þar sem hún lék sér við geitina sína allar helgar.
Tónlistarkonan Cate Le Bon ólst upp á afskekktum sveitabæ sem heitir Penboyr í Carmarthenshire í Wales. Tónlist hennar barst fyrst til eyrna almennings þegar hún hitaði upp fyrir samlanda sinn og kollega, Gruff Rhys úr hljómsveitinni Super Furry Animals árið 2007 og frá því hefur hún gefið út fimm plötur. Sú síðasta, Reward kom út í vor og er Íslandsheimsóknin hluti af tónleikaferð Le Bon í tengslum við þá útgáfu. Le Bon hóf ferilinn á því að syngja á sínu móðurmáli en síðustu fjórar plötur hafa verið á ensku.
Vegur hennar hefur vaxið jafnt og þétt og hljómplötur hennar fengið lofsamlega dóma. Mug Museum frá árinu 2013 kom henni aldeilis á kortið og sömuleiðis þykir platan Crab Day frá 2016 frábær. Með fimmtu hljómplötunni, Reward, þykir Le Bon hins vegar hafa toppað sjálfa sig að mati margra og hafa dómarnir verið afar lofsamlegir. Tónleikarnir hér á Ísland verða í Hljómahöllinni í Keflavík, mánudaginn 9. september og þykir það mikil upplifun að sjá listakonuna á tónleikum. Allar upplýsingar um viðburðinn má finna hér.
„Já, ég ólst upp í velskri sveit og gekk í velskan skóla. Svo um helgar varði ég öllum mínum tíma með gælu-geitinni minni,“ sagði Le Bon í viðtali við Ólaf Pál Gunnarsson í Rokklandi á sunnudag. „Þar eru sérskólar þar sem öll áhersla er lögð á velsku en svo eru það enskuskólar með einstaka velskutímum. Það var foreldrum mínum mikilvægt, þrátt fyrir að þau töluðu hvorugt velsku, að ég lærði tungumálið. Ég fór því í gegnum skólakerfið með aðaláherslu á velsku og ég er því mjög þakklát,“ segir Le Bon en móðir hennar er ensk, frá bænum Warrington og faðir hennar frá Wales. Faðir Le Bon talaði því velsku í æsku en móður hans þótti tungumálið vera mál lágstéttarinnar og vildi því ekki að það yrði talað á þeirra heimili. „Það var því föður mínum mjög mikilvægt að ég, dóttir hans, lærði velsku,“ segir Le Bon.
Velska er, rétt eins og íslenska, ekki töluð á stóru málsvæði og samkvæmt tíu ára gömlum rannsóknum tala eingöngu 20% íbúa Wales velsku. Það eru um 560 þúsund manns. Um 73% landsmanna hafa enga velskukunnáttu. Le Bon talar vissulega velsku en semur þó ekki sína texta upp á sitt móðurmál. „Nei, ég hef gert það en af einhverjum ástæðum finnst mér ég geta samið greinilegri eða augljósari texta á ensku. Velskan rennur ekki eins náttúrulega fyrir mér í textaskrifum eins og enskan. Mér finnst pínu erfitt að semja á velsku og finnast það vera í náttúrulegu flæði. Mér finnst líka að hver sá sem skrifar eigi að geta tjáð sig á því tungumáli sem þeim þykir eðlilegast. Ég tala hins vegar velsku á hverjum degi og það er mér mikilvægt,“ segir Le Bon.
Le Bon fékk mikið og gott tónlistaruppeldi á sínu heimili og lærði á píanó. „Ég ólst upp á heimili þar sem foreldrar mínir elskuðu tónlist og um helgar slökktu þau á sjónvarpinu, tíndu til plöturnar sínar og settu undir nálina. Þetta snerist alltaf mikið um gleði,“ segir Le Bon. „Svo var ég með píanókennara, alveg ótrúlegan, sem bjó í Vestur-Wales. Ég sótti tíma heim til hans og þar mátti sjá myndir upp á vegg, af honum ásamt Paul McCartney og Cat Stevens meðal annarra. Hann hafði átt magnaðan feril sem hljómsveitarstjóri stjarnanna en var virkilega hógvær. Hann lagði einmitt mikla áherslu á að tónlist og tónlistarnám væri gleðilegt og engin kvöð,“ segir Le Bon.
Tónlist Le Bon hefur hrifið marga og þykir hún hafa náð að skapa sinn eigin stíl í bæði söng og gítarleik. Hún hlustaði mikið á tónlist á æskuheimilinu og sækir sínar fyrirmyndir víða. Það var þó ein sérstök manneskja sem hún leit meira upp til en annarra. „Já, ég elskaði Jarvis Cocker. Ég elskaði hann svo mikið. Ég hef nú ekki hitt hann formlega, ég myndi hræðast það mjög. Hann hafði mikil áhrif á mig á uppvaxtarárum. Hann er bara eitthvað svo þvottekta, allt öðruvísi frontmaður eins og við áttum að venjast úr hljómsveitum á þessum tíma. Hann var alltaf mun áhugaverðari karakter an allir hinir, hafði áhugaverða rödd. Svo var honum sama um allt. Eins sýndi hann mikla dirfsku að standa upp og mótmæla Michael Jackson þegar hann hagaði sér eins og Jesús á Brits-hátíðinni,“ segir Le Bon um fyrirmynd sína, Jarvis Cocker úr bresku hljómsveitinni Pulp.
Ólafur Páll ræddi við Cate Le Bon í Rokklandi á sunnudaginn og má heyra viðtalið í heild hér, í seinni helmingi þáttarins. Brot úr viðtalinu má svo heyra með því að smella á myndina hér efst í fréttinni.