Óúteiknanlegur Bandaríkjaforseti er orðinn fastur liður í heimspólitíkinni og það var ein ástæðum fyrir væntingum í lágmarki fyrir leiðtogafund G7 landanna. Gestgjafanum á leiðtogafundi G7 landanna Emmanuel Macron Frakklandsforseta tókst að forðast stórslys, Trump sýndi að mestu á sér sparihliðarnar. Evrópa, eins og aðrir, er að venjast því að Bandaríkin séu ekki lengur til að stóla á.

Stórveldin þegar grundvallarskilningurinn var klár

,,Sjáið til, kæru vinir,“ sagði Maurice Faure aðstoðarutanríkisráðherra Frakka, ,,við höldum enn í þá trú að það séu fjögur stórveldi í heiminum. Í reynd, stórveldin eru ekki fjögur. Þau eru bara tvö, Bandaríkin og Rússland. Í lok þessarar aldar bætist það þriðja við, Kína. Það er undir ykkur komið hvort það verður líka það fjórða, Evrópa.“

Faure hélt þessa ræðu 1957 þegar Bandaríkin virtust veldi sem var hægt að reikna með, svona nokkurn veginn. Þó Bandaríkin hafi ekki alltaf verið jafn upptekin af umheiminum gat Evrópa þó treyst á Bandaríkin, treyst á sameiginlegan grundvallarskilning.

Hinn nýi tónn og kaldar kveðjur

Hinn nýi tónn úr Hvíta húsi Donald Trumps var ekki ,,Bandaríkin fyrst“ heldur þetta óútreiknanlega, eitt í dag og annað á morgun. Nokkrum dögum áður en Trump flaug á leiðtogafund G7 landanna í boði Emmanuel Macrons Frakklandsforseta, sendi Trump Evrópubúum heldur kaldar kveðjur frá einum af þessum fjöldafundum, sem Trump hefur haldið frá upphafi síðustu kosningabaráttu.

,,Reyndar,“ sagði Trump. ,,Evrópusambandið er verra en Kína, bara minna. Þeir fara hræðilega með okkur, hindranir, tollar, skattar. Og við hleypum þeim inn.“

Íslensk jafnlaunavottun á G7 fundinum

Með þessi skilaboð í eyrunum tók Macron á móti Trump. Listi umræðuefnanna var langur – átakasvæði eins og Sýrland, Líbýa og Úkraína. Fríverslun, sem Trump er iðulega andsnúinn samanber viðskiptastríð hans gegn Kína. Umhverfismálin og Íran, allt efni sem Evrópu og Trump greinir á um.

Að ógleymdum kynjajöfnuði þar sem Ísland kom við sögu: jafnlaunavottunin íslenska var að sögn kynnt leiðtogunum. Annað mál hvort vottunin verður tekin upp í Trump-fyrirtækjum. Aðstoðarmenn Trumps viðruðu fyrir fundinn óánægju með að jaðarmál eins og umhverfismál og kynjajöfnuður yrðu rædd.

Trump, sykurhúðað hrós og rök

Það hefur spurst út að besta ráðið í samskiptum við Trump sé sykurhúðað hrós en líka í lagi að vera röklega ósammála honum. Bretar voru spenntir að sjá hvernig Boris Johnson forsætisráðherra tæki á Trump á þessum fyrsta fundi þeirra eftir að hann varð forsætisráðherra. Stæði hann nær Trump en Evrópuleiðtogunum sem hann á í Brexit-deilum við? Nei, Johnson var á evrópsku línunni. Og á morgunverðarfundi hans með Trump hnýtti hann í forsetann fyrir viðskiptastríðið við Kína.

Johnson óskaði Bandaríkjaforseta til hamingju með árangurinn í bandarísku efnahagslífi, alveg frábært. Hins vegar vildi hann skjóta að skoðun Breta á viðskiptastríðinu; Bretar almennt hlynntir viðskipta-friði. Fríverslun hefði gagnast Bretlandi stórvel undanfarin 200 ár.

Kemur Evrópa á eftir Kína á áhugasviði Trumps?

Einn leiðtogafundur án stórslysa leysir ekki vandann í samskiptum Evrópu og Bandaríkjanna. Í grein hagfræðingsins Paul Krugman eftir fundinn skrifar hann að Trump, að eigin sögn einkar stöðuglyndur snillingur, sveiflist í raun til og frá. Það versta við Trump sé óklár stefna hans.

Og við hverja fer Trump næst í viðskiptastríð? Já, kannski Evrópu, segir Krugman. Trump hefur veifað þeim möguleika að setja tolla á frönsk vín en sagði svo á fundinum að tja, kannski ekki af því eiginkonunni Melaníu þætti franskt vín svo gott.

Með Trump er eins og Pútín sé við borðið

Efnið sem sífellt deilir vötnunum milli Trumps og Evrópu og skapaði að sögn einna mesta spennu á leiðtogafundinum er afstaðan til Vladimír Pútíns Rússlandsforseta. Nú sem fyrr reyndi Trump öfluglega að tala máli Pútíns. G7 ætti að vera G8 með Pútín, þrátt fyrir innlimum Krímskaga sem leiddi til afboðunar á leiðtogafundi G7 landanna. Hér hlaut Trump daufar undirtektir. – Það var eins og Pútín sæti við borðið, sagði ráðgjafi sem sat fundinn.

Á blaðamannafundinum eftir leiðtogafundinn var Trump spurður hvort hann, sem gestgjafi G7 fundarins að ári, myndi kannski bjóða Pútín. Trump sló úr og í.

Ráð Stoltenbergs: horfum á hvað gert

Í Íslandsheimsókn í sumar sagði Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins að á tímum óútreiknanlegs Bandaríkjaforseta mætti beina athyglinni að gjörðum Bandaríkjanna, ekki aðeins orðum. Úkraína er áhugavert dæmi. Trump sýnir hvorki Úkraínu né Krímskaga nokkurn áhuga. Samt hafa bandarísk yfirvöld sent vopn til Úkraínu og hert viðskiptabann, tengt Úkraínu, á Rússa.

Macron getur andað léttar, fundinum lokið. Og Evrópa æfir sig áfram í að lifa við Bandaríkjaforseta sem er erfitt að henda reiður á.