„Ég átti nú von á þessu, við spilum við þær [í Olísdeildinni] á laugardeginum fyrir þannig að það eru ótrúlegar tilviljanir í þessu. Maður er einhvern veginn alltaf að spila við liðin í deildinni og svo aftur í bikar, svo við áttum von á þessu,“ segir Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram í handbolta, en Fram og Valur mætast í hörkuslag í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins.
Hefði þetta ekki verið úrslitaleikurinn í rauninni?
„Miðað við stöðuna í deildinni að þá að sjálfsögðu hefði þetta geta orðið það. En eins og þið vitið að þá er þetta bara ný keppni, bikarinn, og það getur allt gerst. Við eigum harma að hefna frá því í fyrra allavega,“ segir Steinunn, en Fram missti bæði Íslands- og bikarmeistartitilinn til Vals í fyrra.
Þið eruð þá væntanlega hungraðar eftir titlaleysið í fyrra?
„Virkilega. Og erum bara mjög reiðar. Það vill enginn mæta okkur í þessu standi.“
Díana Dögg Magnúsdóttir, leikmaður Vals, hlakkar til að fá hörkuleik í undanúrslitum. „Alltaf gaman að fá erfiðan leik. Við erum búnar að taka einn leik fyrir þennan úrslitaleik þannig að það er bara skemmtilegt,“ segir Díana Dögg, en Valur vann fyrri viðureign liðanna í Olísdeildinni í vetur með eins marks mun, 19-18.
„Fram er fyrirstaðan núna og auðvitað ætlum við að komast í gegnum það.
Leikur Vals og Fram verður spilaður í Laugardalshöllinni klukkan 20:30 miðvikudaginn 4. mars. Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV 2.