„Svo er auðvitað ekkert víst að lög þurfi einhvern ákveðinn enda. Þegar allt kemur til alls er tónlist ekki bíómynd eða bók eða útvarpspistill,“ segir Friðrik Margrétar Guðmundsson sem rýnir í tískusveiflur í því hvernig eigi að enda lög.


Friðrik Margrétar Guðmundsson skrifar:

Ímyndaðu þér að þú sért að hlusta á útvarpið og allt í einu spilast uppáhaldslagið þitt. Þetta er lag sem þú hefur hlustað á margsinnis, þú þekkir það eins og handarbakið á þér, hvern einasta krók og kima tónsmíðarinnar. Þú ert kannski nú þegar að söngla lagið í hausnum, þessar eftirminnilegu línur í versinu eða kannski er uppáhaldslagið þitt í sónötuforminu og þá hljómar fyrsta stef framsögunnar í höfðinu þínu. Eða kannski er uppáhaldslagið þitt bara 15 mínútna dróni með enga laglínu en minningin um hljóðheiminn leggst á þig eins og hlýtt flísteppi. Langlíklegast er að það fyrsta sem komi upp sé húkkurinn í laginu enda eru þau til þess gerð. Húkkurinn er oftast viðlag lagsins en þó með fjölmörgum undantekningum því eins og við vitum öll eru lög alls konar í laginu, afsakið þennan orðaleik. Lög eru í margs konar formum, yfirleitt beintengt því hvers lags þau eru, afsakið aftur, yfirleitt beintengt því hvaða tónlistarstefnu þau tilheyra. En þau eiga það öll sameiginlegt að einhvern tímann verða þau að enda. Og nú vil ég að þú, kæri hlustandi reynir að ímynda þér hvernig uppáhaldslagið þitt endar, því það verður umfjöllunarefni þessarar hugvekju.

Mér finnst oft skemmtilegt að bera tónlist saman við önnur listform. Hvernig eru væntingar okkar til tónlistar öðruvísi en til til dæmis bíómynda? Bíómyndir innihalda oft eitthvert ferðalag aðalpersónu, eitthvað sem kemur upp á, nýjar áskoranir sem þarf að yfirstíga og svo í endann kemur einhver lausn, eitthvað niðurlag sem þræðir saman alla lausa enda og við horfum á aðalhetjuna ríða inn í sólarlagið. Í lögum fáum við vissulega oft ferðalag, nýja kafla sem eyrun okkar þurfa að takast á við. Eitthvert ris. En hvað gerist í endann, hvernig enda lög?

Niður með sleðann

Á sjötta áratuginum, þegar það var komin nokkuð góð reynsla á plötugerð var nánast regla að lög enduðu þannig hljóðfæraleikarararnir héldu áfram að spila kannski lokaviðlagið aftur og aftur á meðan að upptökustjórinn ýtti hægt og rólega sleðanum sem stjórnaði hljóðstyrknum niður þar til ekkert heyrðist lengur. Hið svokallaða fadeout sem allir ættu að kannast við. Kannski er þetta ekki ósvipað því að áhorfendur horfi á aðalhetjuna ríða í átt að sólarlaginu, hægt en örugglega minnkar fígúran á skjánum og við verðum vör um umheiminn, alveg eins og við verðum vör um það að utan lagsins sem hægt en örugglega fjarar út eigum við okkur líf utan veggja tónlistarinnar.

Fadeout-ið var eins og ég sagði mikið notað á sjötta áratugnum og náði líklegast hámarki á þeim sjöunda og áttunda en á síðari árum hefur því sjaldan brugðið fyrir. Örlög fadeout-sins eru því búin að vera í anda sjálfs fyrirbrigðisins en það er búið að fjara hægt en örugglega út úr heimi popptónlistar á síðustu áratugum. Það er enn óvíst hvað olli þessum óvinsældum þessa stílbragðs en í þónokkurn tíma hefur fadeout-ið þurft að mæta harðri gagnrýnni tónlistaraðdáanda sem kalla það ódýra lausn og hreina og beina leti af hálfu tónlistarmanna. Ég var sjálfur á mínu yngri árum gallharður andstæðingur fadeouts-ins en eftir því sem ég hlusta meira á tónlist hefur mig farið að gruna að það sem oftast kemur í staðinn sé heldur ekki metnaðarfyllstu stílbrögðin.

Ég er þó ekki einn um það að skipta um skoðun á fadeout-inu, Á fyrri hluta ferilsins voru Bítlarnir ekki mikið fyrir að láta lögin sín fjara út. Á meðan frægðarstjarna fadeouts-ins skein sem skærast kusu þeir fremur að lögin fengju kaldan endi. Reyndar er kannski einn alræmdasti endir í popplagi úr laginu A Day in A Life. Þar beita fjórmenningarnir frá Liverpool andhverfu fadeouts-ins, í lokahljómnum hækkuðu þeir hægt og bítandi í laginu til að hljómurinn fengi að lifa ónáttúrulega lengi.

Eftir 1966 urðu þeir þó opnari fyrir því að leyfa lögunum sínum að fjara út og má segja að Hey Jude sé nokkurs konar einkennislag þessarar tækni, eitt lengsta fadeout sem sögur fara af. Það er mjög skiljanlegt að tónlistmenn með aðgang að töfrum stúdíósins hafi nýtt sér upptökutæknina til að búa til endi sem hentaði nýrri öld. Áður en upptökutæknin kom til sögunnar þurftu tónlistarmenn að sætta sig við að búa til endi sem þurftu að fylgja náttúrulögmálunum. Í klassískri tónlistarsögu hefur þróun enda verið mikil stúdía.

Í stærri og umfangsmeiri verkum klassískrar tónlistar skiptir endirinn gríðarlega miklu máli og getur jafnvel verið sá þáttur sem annaðhvort bjargar lélegu verki eða eyðileggur gott verk. Þegar samið er langt verk með framvindu skiptir öllu máli að draga fram allt það mikilvægasta inn í endinn og að hlustandinn fái tilfinningu fyrir því að nú sé endirinn að nálgast. En endirinn má heldur ekki vera of fyrirsjáanlegur eða tilgerðarlegur.

Ef við förum alveg aftur á barokktímann þótti eðlilegt að verk enduðu á einföldu og skýru hljómasambandi sem er kallað aðalendir og hljómar einhvern veginn svona. En eftir því sem við komum nær 20. öldinni fara endar að taka meira pláss oft með löngum kóda eins og það er kallað þegar það kemur nýtt efni til að byggja upp endann, einhvers konar „outro“. Seint á 19. öldinni voru endar orðnir svo stórir og epískir að það var nánast farið að vera asnalegt og leiðinlega fyrirsjáanlegt. Þá sjáum við uppvöxt þöglu endanna, það að enda verk eins hljótt og mögulegt er, deyjandi endar.

Þöglu endarnir nutu mikilla vinsælda á 20. öldinni og gera enn í dag. Einn af eftirminnilegustu þöglu endunum er eflaust úr Plánetunum eftir Gustav Holst. Í lokakaflanum, Neptúnusi, syngur kvennakór síðustu hendingarnar sem enda á að endurtaka sig aftur og aftur. Á meðan konurnar syngja labba þær hægt út úr tónleikasalnum þangað til að allur kórinn er kominn út og dyrunum er lokað á eftir þeim.

Ruslatunnuendirinn

Það mætti í rauninni segja að þarna hafi Gustav Holst notast við fadeout-ið u.þ.b. 50 árum áður en það varð að standard. Á 20. öldinni og til okkar tíma hafa þó mörg tónskáld reynt við orkumeiri enda og oft með góðum árangri, en oft verður niðurstaðan frekar ruglingsleg og áhrifalítil, þegar tónskáld reyna að forðast að detta inn í klisjurnar á hlustandinn oft erfitt með að meðtaka það að endirinn sé nærri og hann fær ekki þessa tilfinningu um að einhverju sé að ljúka.

Eins og ég sagði áður var fadeout-ið notað mikið í popptónlist á frá árunum 1950-70 en þegar rokkbönd áttunda áratugarins eins og Led Zeppelin, Deep Purple og The Who fóru að koma sér á vinsældarlistana fór að bera á öðru. Þetta voru hljómsveitir sem voru þekktar fyrir að vera frábær tónleikabönd og á tónleikum var ekki hægt að láta lögin fjara út heldur enduðu lögin yfirleitt með einhverri slaufu sem snyrtilega gaf til kynna endann svo hlustendur vissu að nú var komið að endi lagsins sem skilaði sér auðvitað í brjálaðri fagnaðarlátum. Hljómsveitirnar tóku svo þessar aðferðir með sér í stúdíóið og þá var engin ástæða til að láta lagið fjara út. Hér voru margar frumlegar leiðir notaðar, sumar mjög skýrar, aðrar kannski frekar leiðinlegar.

Nokkrar vinsælar leiðir eru t.d. að slá nokkra kraftmikla hljóma eins og í We Won’t Get Fooled Again eftir The Who, syngja viðlagið helmingi hægar í seinasta skiptið eins og í Hush með Deep Purple, eða hraða á laginu út í hið óendanlega eins og í 21st Century Schizoid man eftir King Crimson. En auðvitað var sá allra vinsælasti hin margnotaði ruslatunnuendir. Eins og fadeout-ið hefur hann á seinni árum fengið á sig stimpil fyrir að vera ódýr lausn og þykir ekki fínn. Þessi endir lýsir sér þannig að þegar lagið klárast byrja allir hljóðfæraleikararnir að spila rosa mikið og handahófskennt í nokkrar sekúndur og svo enda allir saman.

Tónlistarmiðillinn hefur auðvitað breyst mikið með nýjum stefnum og nýrri tækni, gífurlega mikið. Á síðustu árum og áratugum höfum við séð hvernig popptónlist hefur verið tekin inn á við. Oft frekar hugsuð fyrir fólk sem er að hlusta í heyrnartólum í einrúmi heldur en á risastórum tónleikum. Auðvitað er heimskulegt að alhæfa eitthvað um tónlist dagsins í dag, sama hvað tónlistarspekúlantar segja, það er svo mikið til af fjölbreyttri tónlist að möguleikarnir eru óendanlegir. En þess vegna hef ég kannski aðallega beint sjónum mínum að vinsælli lögum dagsins í dag einfaldlega vegna þess að ég hef ekki haft tíma til að hlusta á öll lög, hvað þá til enda.

Lög hætta að spilast

Er kannski enginn sem hlustar á lög til enda? Þeir allra svartsýnustu vilja kannski meina að fólk noti „skipp“-takkann óspart og þess vegna skipti endar á lögum ekki máli. Ég hef reyndar persónulega enga trú á því að fólk nenni ekki lengur að hlusta á lög til enda en ég í leit minni að góðum endum í popptónlist dagsins í dag hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum. Lög bara enda eiginlega ekki lengur. Þau bara einhvern veginn hætta að spilast. Eftir lokaviðlagið kemur bara hola sem er fyllt upp í með næsta lagi. Þessir ísköldu endar geta verið mjög sniðugir á plötum eins og á In The Zone eftir Britney Spears þegar endirinn á Toxic skilur eftir sig gat sem næsta lag Outrageous fyllir upp í.

En það virðist ekki vera tilfellið hjá öllum því maður sér þetta líka í lokalögum platna og smáskífum þar sem það er ekkert lag til að taka við. Eins og ég segi er þó mjög mismunandi eftir stefnum hvernig lög enda. Í house-tónlist enda lög oft á löngum bassatrommukafla sem eru til þess hugsaðir að plötusnúðurinn á klúbbnum þurfi að hafa lítið fyrir því að blanda laginu saman við næsta lag, þessir endar eru sem sagt til að auka á leti þriðja aðila, sem mér þykir skrýtin listræn ákvörðun.

Tæknin hefur nú samt leyft tónlistarmönnum að fikta með nýja og frumlega enda. Dæmi um það er t.d. „slow motion“ endirinn sem kemur meðal annars við sögu í laginu „Strákarnir“ með Emmsjé Gauta. Mjög einfalt og frumlegt stílbragð. Í lokin langar mig líka að spila minn uppáhalds enda sem er úr laginu „Sjáum hvað setur“ með hljómsveitinni Moses Hightower. Eftir lokaviðlagið er eins og það sé að byrja nýr kafli í laginu með dúndrandi lúðrablæstri sem fær svo skjótan endi.

Það er því kannski ekki ástæða til að skrifa minningargrein um popptónlistarenda. Þó svo að það fari ekki mikið fyrir þeim leynast sniðugar slaufur hér og þar. Svo er auðvitað ekkert víst að lög þurfi einhver ákveðinn enda. Þegar allt kemur til alls er tónlist ekki bíómynd eða bók eða útvarpspistill. Hún er bara tónlist og þarf ekki að fara eftir neinum reglum. En það geta þó allir verið sammála um að allt er gott sem endar vel.