Á árum áður heimsóttu heimsþekktir tónlistarmenn ekki Ísland í hverjum mánuði eins og nú. Í tengslum við Listahátíð í Reykjavík árið 1986 var haldið Listapopp; stórtónleikar tvö kvöld í röð þar sem m.a. Madness, Fine Young Cannibals og Simply Red komu fram.
Í öðrum þætti af Veröld sem var, sem er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöld er rifjuð upp koma ýmissa heimþekktra listamanna til Íslands, þar á meðal hins írska og fúllynda Micks „Rauða“ Hucknalls. „Stranglers detta úr skaftinu, og við finnum enga sem eru svipað þekktir. En það er mjög efnileg hljómsveit frá Manchester sem heitir Simply Red með Mick „Red“ Hucknall í fararbroddi og það er ákveðið að taka sénsinn á þeim,“ segir Jónatan Garðarsson sem skipulagði Listapopp ásamt Steinari Berg. „Það veit það enginn á þessu augnabliki að Holding Back the Years er akkúrat að síga upp listana. Þannig þegar þeir koma til Íslands eru þeir á toppinum í Bandaríkjunum, og voru mjög góðir með sig.“
Það seldist upp á tónleikana og viðburðurinn heppnaðist á heildina litið vel. „Það var snarfullt og tónleikarni voru mjög góðir. En Mr. Simply eins og hann var kallaður, Mick Hucknall, hann var með tóma stæla. Þegar sjónvarpið ætlaði að koma og mynda voru þeir bara reknir út.“ Í eftirpartýinu hafi hann svo bara viljað vatn og ekkert áfengi. „Hjörtur Howser hljómborðsleikari Grafíkur kom með vatnskönnu og hellir í glas fyrir hann. Þá segir Mick, „Eru ekki fiskar búnir að kúka í þetta vatn? Ég vil fá á flösku.“ Hjörtur segir að það sé bara hægt að fá beint úr krananum. „Já nei takk, ég vil ekki neitt.““
Rætt verður við Jónatan Garðarsson og Listahátíð í Reykjavík rifjuð upp í Veröld sem var, sem er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöld klukkan 19:45. Hægt er að horfa á fyrsta þáttinn í spilara RÚV.