Framkvæmdastjóri Nordic Visitor segir að sumarið verði mörgum fyrirtækjum í greininni afar þungt. Mörg þeirra höfðu ekki náð sér eftir fall WOW Air og þess vegna sé útbreiðsla COVID-19 veirunnar högg á högg ofan. Hann kallar eftir skýrari aðgerðum af hálfum stjórnvalda.

„Svona heilt yfir má gera ráð fyrir að það sé 50 prósent samdráttur í nýjum bókunum. Ofan á þetta bætist að fyrirtæki í ferðaþjónustu eru að fá mikið inn af afbókunum. Þannig að það er afskaplega erfitt að segja, verður þetta erfitt sumar eða virkilega erfitt sumar,“ segir Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor.

Ásberg segir að mörg fyrirtæki í greininni hafi ekki enn náð að jafna sig eftir fall WOW Air og faraldurinn gæti því komið þungt niður á mörgum fyrirtækjum. Þess vegna verði stjórnvöld að skýra enn betur hvað felist í þeim tillögum sem kynntar voru í gær. „Það er ekki hægt að taka neinar ákvarðanir í rekstri útfrá því sem þau hafa sagt. Til þess að gera það þarf þetta að vera mun skýrara vegna þess að í dag eru fyrirtækin að undirbúa uppsagnir þannig að það er mjög nauðsynlegt að fá skýr svör á allra næstu dögum. „

Allt viðtalið við Ásberg má sjá í spilaranum hér að ofan.