Kona, sem gekkst undir þungunarrof á tuttugustu og annarri viku meðgöngu eftir að fóstrið greindist með alvarlegt tilfelli vatnshöfuðs, segir sárt að vera kölluð morðingi af kjörnum fulltrúa á Alþingi. Hún telur umræðu um þungunarrof á villigötum.
Magnea Helgadóttir var 21 árs þegar hún varð þunguð af sínu fyrsta barni. Eftir rúmlega 19 vikna meðgöngu kom í ljós við ómskoðun að fóstrið væri með vatnshöfuð, og einungis einn þriðji hluti annars heilahvelsins væri með heilavef. „Það myndi aldrei yfirgefa spítalann, þetta væri barn sem yrði bundið við spítalann allan tímann, yrði með slöngur í höfðinu til þess að losa af þrýsting af höfðinu á því,“ segir Magnea. „Það var ekki að fara að tala, það var ekki að fara að labba, það myndi ekki einu sinni vita hver ég væri. Ég gæti ekki einu sinni útskýrt fyrir barninu af hverju það væri á spítala og af hverju það væri að kveljast. Og við komumst að þeirri niðurstöðu að við myndum ekki vilja láta barnið okkar þjást, það væri betra að binda enda á þetta, leyfa henni að fara í friði.“
Magnea og barnsfaðir hennar ákváðu því að óska eftir þungunarrofi. Þá var þeim sagt að þau þyrftu að bíða eftir leyfi frá nefnd Landlæknis. Þeim var einnig tjáð að það væru litlar líkur á að beiðni þeirra yrði hafnað. „Og ég man bara að ég kom heim og ég hugsaði; hvernig getur þetta ekki verið mín ákvörðun eða okkar foreldranna?“
Erfið bið eftir svari við þungunarrofsbeiðni
Leyfið barst loks þegar Magnea var gengin 21 viku og fimm daga. „Og þetta er mjög nálægt mörkunum milli lífs og dauða,“ segir Magnea.
„Þegar loksins kom að aðgerðinni, og hún var samþykkt, þá tók það tvo daga uppi á kvennadeild fyrir mig að fæða,“ segir Magnea, en á þessu stigi meðgöngu þarf að framkalla fæðingu við þungunarrof.
„Hún sem betur fer fæddist andvana. Og ég fékk að vita það að það hefði bara munað svona hálfum sólarhring, þá hefði hún kannski fæðst lifandi, reynt að taka smá andardrátt og svo hefði hún bara dáið. Og það hefði verið rosalegt að þurfa að horfa upp á það líka, ofan á allt annað.“
Samkvæmt frumvarpi heilbrigðisráðherra, sem nú er til umræðu á Alþingi, verður heimilt að rjúfa þungun konu, að hennar beiðni, til loka 22. viku þungunar. Til stendur að greiða atkvæði um frumvarpið á morgun. Magnea hvetur þingmenn til þess að samþykkja frumvarpið. „Allir þingmenn ættu að segja já. Ef þú situr hjá þá ertu að segja nei,“ segir hún.
Magnea bendir á að með frumvarpinu sé ekki verið að lengja tímarammann, heldur verið að færa ákvörðunarvaldið til konunnar, og spara henni bið eftir ákvörðun nefndarinnar. „Biðin eftir þessu, frá því að ég skila inn umsókn og þangað til að það kemur að þessu var, að mér finnst, heil eilífð.“
Erfitt að sitja undir umræðunni
Frumvarpið hefur vakið harðar deilur á Alþingi. Magnea segir erfitt að sitja undir þeim orðum sem hafa verið látin falla. „Það er ofboðslega erfitt að sætta sig við það að vera kallaður morðingi.“
„Mín saga er á bak við hverja einustu fóstureyðingu, eins og fólk vill kalla þetta, sem er framkvæmd eftir 14. viku meðgöngu. Þú ert að tala um fólk sem er með rosa sorg í hjarta sér, og mun bera alla sína ævi, og að einhver skuli kalla þetta sama fólk - mig - morðingja. Það er mjög erfitt að sitja undir því,“ segir Magnea. „Það er bara ekki sanngjarnt.“
Lengri útgáfu af viðtalinu við Magneu má sjá hér fyrir neðan: