Sérfræðingur í eldsneytismálum segir erfitt að spá fyrir um hver áhrif olíuverðshækkana verða vegna drónaárásarinnar í Sádi-Arabíu. Vari ástandið áfram geti það haft talsverð efnahagsleg áhrif.
Það er ekki ljóst hvaða áhrif drónaárásin á olíuframleiðslustöð ríkisfyrirtækisins Saudi Armaco mun hafa. Verð á hráolíu rauk strax úr um 60 dollurum í 72 fyrir tunnuna sem er um 20 prósenta hækkun. Eftir að markaðir fóru að ná áttum hefur verðið farið niður aftur en er nú um 69 dollarar. Hækkunin um helgina var sú mesta á einum degi frá árinu 1988. Það kemur ekki á óvart að ýmsir séu uggandi. Helmingur framleiðslu Sádi-Araba liggur niðri um, 5,7 milljónir tunna á dag eða um 6% af heimsframleiðslunni.
Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, segir að enn hafi ekki komið fram hvað var eyðilagt í árásinni. Það skipti máli með tilliti til eftirspurnar hvort það hafi tengst hráolíu, gasolíu, bensíni eða gasi.
„Ég myndi eiginlega vilja sjá lengra fram á veginn áður en maður sér langtíma áhrifin. Skemmri áhrifin eru þau að verðið rauk upp um 60 dollara að meðaltali á tegund," segir Magnús.
Víða til varabirgðir
Þarna á Magnús við tonn af eldsneyti. Í dag hafa Sádi-Arabar tilkynnt að þeir hafi tryggt að staðið verði við afhendingu olíu til nokkurra olíuhreinsistöðva í Asíu. En til að bregðast við olíuskorti og koma í veg fyrir verðhækkanir er annaðhvort að grípa til varabirgða eða auka framleiðsluna. Magnús bendir á að birgðir séu til í Bandaríkjunum, Rússlandi og í Evrópusambandinu, sem er í samræmi við reglur Alþjóðaorkumálastofnunarinnar. Þá eru samræmdar reglur hjá OPEC-ríkjunum um olíuframleiðslu.
„Það er mjög líklegt að jafnvel nágrannaríki Sádanna séu vel aflögufær með það að auka framleiðsluna. Það eru kannski minni líkur að t.d. Norðmenn eða þær þjóðir geti aukið framleiðsluna. Rússar gætu gert það og Bandaríkjamenn og ýmsar aðrar OPEC þjóðir. Sádarnir eru búnir að lýsa því yfir að það muni koma meiri brigðir inn á markaðinn," segir Magnús.
Eins og gefur auga leið koma fleiri aurar í kassann hjá olíuríkjunum nú þegar verðið hefur hækkað. Magnús býst þó ekki við að þau tregðist við að grípa til varabirgðanna. Í venjulegu árferði aukist framleiðslan í október þegar fleiri þurfa að kynda húsin sín.
Bensínið aðeins á 60 krónur
N1 hækkaði bensínlítrann um 1,50 kr. og dísil um 2,50 í morgun. Það er vert að hafa í huga að sjálft olíuverðið er tiltölulega lítill hluti af útsöluverðinu. Ef við tökum dæmi um bensínlítra sem kostar 238 krónur þá er kostar lítrinn um 60 krónur, 130 krónur bætast við í formi vörugjalds, bensíngjalds og kolefnisgjalds. Svo leggst virðisauki á allt saman.
„Það er mjög erfitt að segja til um hver þróunin verður núna á næstunni. Það liggur þó fyrir að það bíður alla vega til skemmri tíma. En við vitum ósköp lítið og það þarf að sjá lengra fram á veginn til að hægt sé að segja eitthvað meira um áframhaldandi þróun sem ég hef nú tilhneigingu til að halda að það muni slakna á þessari spennu á olíumörkuðum þegar einhverjar vikur verða liðnar frá þessum atburði." segir Magnús.
Magnús vill fara varlega í að spá um hver framvindan verður. Ýmir þættir hafi áhrif, svo sem gengi bandaríkjadollars.
„Það liggur í augum uppi að svona hækkun hefur auðvitað áhrif á alla markaði hvort sem það er eldsneyti til ökutækja eða flutninga á sjó eða í lofti."
Getur haft mikil áhrif
Eldsneytisverðið nemur um 3,5% af vísitölu neysluverðs og getur því hleypt verðbólgunni af stað. Það getur haft áhrif á ferðaþjónustuna og svo mætti lengi telja. Við höfum gengið í gegnum nokkrar olíukreppur.
„ Já, þetta hefur náttúrulega töluverð efnahagsleg áhrif ef þetta heldur áfram til lengri tíma. Síðasta olíukreppa eða kryppa sem ég man eftir var á árunum 1996 til 2000. Hún hjaðnaði og ástandið hefur ekki verið eins sveiflukennt síðan. Efnahagsleg áhrif grípa náttúrulega alla því olían er svo stór þáttur í hversdags lífinu og lífi mannkyns en kannski miklu meiri víða erlendis en hér," segir Magnús.
Við þetta má bæta að eftir að vitalið var tekið hefur verð á hráolíu lækkað um 6% í dag. Sádi Arabar hafa tilkynnt að framleiðslan verði komin í samt lag eftir tvær til þrár vikur.