Í Sverrissal í Hafnarborg hafa listakonurnar Olga Bergmann og Anna Hallin, eða Berghall, útbúið eftirmynd af fangaklefa í fangelsinu á Hólmsheiði.
Sýningin nefnist einfaldlega Fangelsi. Efniviðurinn hefur verið Önnu og Olgu hugleikin. Á sínum tíma hlutu þær fyrstu verðlaun í samkeppni um listskreytingar í fangelsinu á Hólmsheiði, þar sem þær komu fyrir „fuglahóteli“ sem hægt var að fylgjast með í sjónvarpi í fangelsinu.
„Á meðan þeirri vinnu stóð dúkkuðu upp alls konar hugmyndir; við vorum að velta fyrir okkur frelsissviptingu, tíma og rými og allt mögulegt sem var að malla meðan við unnum hitt verkefnið,“ segir myndlistarkonan Anna Hallin.
Í Sverrissal er hugmyndin að gestir geti farið inn í fangaklefann og lokað að sér.
„Í fangelsi fólk lokað inni ákveðinn hluta úr degi. Svo þetta er aðferð til að fólk upplifi svolítið hvernig sé að vera lokaður inni í svona rými og setji sig í ákveðin spor. Frelsið er dýrmætt og það er erfitt að ímynda sér að vera frelsissviptur ef maður hefur ekki upplifað það sjálfur,“ segir Olga Bergmann myndlistarkona.
Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.