Tíu kafarar úr Björgunarsveitinni Suðurnes hafa leitað í allan dag að belgíska ferðamanninum sem talið er að hafi fallið í Þingvallavatn á laugardag. Haraldur Haraldsson, kafari og formaður björgunarsveitarinnar, segir að aðstæður ofan í vatninu séu erfiðar. Í botninum eru hraungjótur sem margar hverjar eru mjög djúpar. „Ég veit að dagurinn í dag verður strembinn,“ sagði hann í viðtali við fréttastofu í morgun, áður en leitin hófst.

Tólf kafarar úr sveitinni leituðu fram á kvöld í gær. Þá voru einnig á milli 30 og 40 manns sem gengu með fram vatninu auk þess sem leitað var með dróna. Kajak mannsins og bakpoki fundust á vatninu á laugardag og þá var strax farið að leita að honum. 

Djúpt vatn og stórt svæði

Dýpstu gjóturnar í vatninu eru um 80 metra djúpar. Í gær var leitað á um 22,5 metra dýpi. Haraldur segir að þeir kafi ekki niður í 80 metra djúpu gjóturnar en rýni ofan í bær. Hann segir ekki ásættanlegt að senda kafarana á svo mikið dýpi. 

„Þetta er kalt vatn, þetta er djúpt, þetta er stórt svæði,“ segir Haraldur. Vatnið er þrír kílómetrar á annan veginn og þrír og hálfur á hinn veginn og því tekur leitin sinn tíma. Leit eins og þessi getur reynt mikið á kafara, sérstaklega tvo daga í röð. „Það tekur auðvitað á að kafa endurteknar djúpar kafanir. Kafararnir þurfa náttúrulega að halda hundrað prósent athygli,“ segir Haraldur. Vatnið sé kalt og þó að þeir séu með mjög góðan búnað, þá taki þetta á. „Við erum auðvitað að leita að manni, manneskju, og það tekur alltaf á.“

Kafarar festir á stiga í bátnum

Við leit kafaranna er álstigi lagður þvert yfir bátinn. Hann nær um einn og hálfan metra út fyrir bátinn hvoru megin. Línur eru festar í stigann og kafarar festir við línuna, einn stjórnborðsmegin og annar bakborðsmegin. Þeir eru með sérstakar heilgrímur og geta talað við og hlustað á mann uppi í bátnum.

Skyggnið í vatninu var ekki gott í gær því mikill öldugangur hafði verið og mikið rót. Haraldur átti von á að aðstæður væru betri í dag. Skipstjórinn siglir með GPS-tæki á milli fyrir fram ákveðinna punkta á vatninu. „Þannig náum við að leita vatnið tiltölulega vel,“ segir Haraldur. Það hefur þó hjálpað til að vatnið sé heitara en vanalega, í gær það hitastigið um 12 gráður. 

Leita áfram á næstunni

Áætlað er að kafararnir hætti leit á milli klukkan 18 og 19. Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á Suðurlandi, er áætlað að leita áfram í kringum helgina. Þá leitar björgunarsveitarfólk gangandi, siglt verður á bátum um vatnið og leitað verður með dróna.