Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur fjallar um það sem gerist þegar umheimurinn er ekki til.


Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Þriðjudagur 21. maí 1990. Fyrirsagnir á íslensku dagblaði þennan morguninn eru svohljóðandi: Stjórn Iliescu forseta sökuð um gróf kosningasvik: Endurreisnarráðið vinnur stórsigur í þing- og forsetakosningum í Rúmeníu. Laun og forréttindi Gorbachevs lögbundin. Alexander Dubeck Tékkóslóvakíuforseti í Moskvu. Hubble-risasjónaukinn: Ný stjarna sást á fyrstu myndunum. Og Ísrael: Fjöldamorð vekja heift meðal Araba. Forsíða sama dagblaðs 21. maí árið 2000. Vilji til að sameina Kína og Taívan. Átök á Vesturbakkanum. Óöld eftir valdarán. Cherie Blair eignast son. Vill hverfa frá refsiaðgerðum gegn Austurríki. Neyðarlögum hótað í Liechtenstein. Forsíður íslensku blaðanna 21. maí 2019 voru svohljóðandi: Þristarnir mættir á Reykjavíkurflugvöll. Færri fara seint í þungunarrof. Orkupakkinn fram á nótt. Bálfarir ríflega helmingur. Hjólabretti og matartorg á Miðbakka. Salerniskort CCU hafa opnað fólki dyr.

Þessar forsíður frá 1990 og 2000 valdi ég algjörlega af handahófi. Ef það er eitthvað sem þessi kæruleysislegi og óvísindalegi samanburður sýnir þá er það að verulega ólík heimsmynd birtist Íslendingum á maímorgni sem þessum fyrir 19 árum og 29 árum. Þessum samanburði mætti einfaldlega lýsa svona: Einu sinni var umheimurinn forsíðuefnið á Íslandi. Það þótti ástæða til þess að segja frá því á forsíðu blaða hvað var að gerast í Rúmeníu, Ísrael, Liechtenstein, Perú og svo framvegis. Þetta er löngu liðin tíð. Ég veit af eigin reynslu að það er ekki til neitt lengur sem heitir erlend fréttadeild á íslenskum fjölmiðlum – Ríkisútvarpið er þar að vísu undanskilið, enda kæmist það aldrei upp með annað – en hér áður fyrr var talsverður mannafli á íslenskum fjölmiðlum sem helgaði starf sitt einvörðungu erlendum málefnum. Enda voru blöðin stútfull af fréttum um umheiminn. Það er merkilegt og eiginlega hálffurðulegt að hugsa til þess. Getur þú, ágæti hlustandi, hugsað þér að forsíðan sem blasir við þér liggjandi hjá bréfalúgunni í fyrramálið verði um pólitísk tíðindi frá Liechtenstein eða einhverja atburði í Suður-Ameríku eða á Kóreuskaga. Það er í einu orði sagt óhugsandi. 

En verufræði íslenskra fjölmiðla var þessi: Umheimurinn er til. Og siðfræði, eða hagnýt siðfræði þeirra var: það er þessi umheimur sem skiptir máli! Það er hann sem á heima á forsíðunni. En núna er öldin önnur, nú er hún Snorrabúð stekkur. Og mér finnst þess vert að spyrja: Hvaða áhrif hefur þetta? Hvaða áhrif hefur það að fréttaflutningur af umheiminum er í algjöru aukahlutverki, verkefni sem einhver hoppar í á fréttastofunni og þýðir nokkur fréttaskeyti frá alþjóðlegum fréttaveitum? Getur verið að þetta hafi kannski bara töluverð áhrif, til dæmis hvaða augum við sjáum aðrar þjóðir og menningarheima? 

Mér finnst réttast að vera alveg hreinskilinn með það að mér sjálfum finnst þetta afar sorgleg þróun. Mér finnst satt best að segja átakanlegt að horfa upp á þetta, og ástæða þess að mér finnst það er að einhverju leyti sú að ég ólst upp í þessu umhverfi – þessari horfnu heimsmynd – og þess vegna hefur þetta viðfangsefni tilfinningalegt gildi fyrir mig. Í þessum klefa Lestarinnar er iðulega verið að rannsaka sjónarhorn sem eru alls ekki endilega mínar persónulegu skoðanir, oft langt því frá, en í þessu tilviki er um að ræða persónulegt viðhorf mitt sem er litað af tilfinningum og nostalgíu. Þegar ég skoða gamlar forsíður dagblaða, þá er ég um leið að líta um öxl inn í æsku mína og það sem ég hafði óhjákvæmilega áhuga á sem krakki, og það sem ég sé er heimur, sem er algjörlega horfinn ofan í niðurfallið. Það er með ólíkindum að hugsa til þess að í allri fjölmiðlaflórunni á Íslandi, öllum hlaðvörpunum og vefmiðlunum og dagblöðunum, þá er ekki að finna einn fréttaskýringarþátt sem er algjörlega helgaður heimsfréttum. Samt sem áður er að finna gríðarlega þekkingu á alþjóðamálum innanhúss hjá þeim fjölmiðlum sem ég þekki til hér á landi. En það virðist ekki þykja ástæða til þess að beina kastljósinu sérstaklega að þessari þekkingu eða gera henni hátt undir höfði. En ég tek fram að það eru undantekningar á þessu. En þær eru undantekningar og fágætar sem slíkar.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé – mér liggur við að segja – skylda Íslendinga að fjalla vandlega um umheiminn og það sem er að gerast annars staðar en á Íslandi, einmitt vegna þess að við erum einangruð, einmitt vegna þess að við erum talsvert í burtu og svolítið sér á báti, einmitt vegna þess að við getum svo auðveldlega komist upp með það að stara látlaust ofan í eigin nafla. Ef við vanrækjum lengi að fjalla vandlega um umheiminn er hætt við því að förum að misskilja alvarlega annað fólk, aðrar hugmyndir, aðra menningu og svo framvegis, líta stórt á okkur sjálf á kostnað annarra, akkúrat vegna þess að við erum ekki beinlínis í snertingu við þessi fyrirbæri á hverjum degi. Hatur á til dæmis flóttamönnum, hatur á framandi hugsun, hatur á framandi menningarsvæðum, hatur á útlendingum, hatur á öðrum löndum, hatur á framandi siðum, ég ætla kannski ekki beinlínis að halda því fram að slík andúð haldist í hendur við þá staðreynd að umheimurinn sé algjörlega horfinn af forsíðunni, en ég held að það hafi svo sannarlega áhrif. 

Náinn vinur minn sendi mér ekki fyrir löngu hlekk á fréttatíma RÚV sem hafði hafist á 10 mínútna hlemmi um Klausturbarsmálið. Fréttin þar á eftir hófst síðan á þessum orðum: „Aðgerðarleysi í loftslagsmálum þýðir hrun siðmenningar og endalok stórs hluta hins náttúrulega heims.“ Já, frá fullum þingmönnum á bar og beint yfir í hrun siðmenningarinnar og endalok heimsins. Það var eitthvað við þessa samsetningu sem var svo dásamlega lýsandi. Aðgerðarleysið í loftslagsmálum mun kalla yfir okkur dómsdag, og ástæða þess að við erum aðgerðarlaus í loftslagsmálum hefur síðan kannski eitthvað með það að gera að okkur finnst það augljóslega ekki einu sinni vera merkilegasta fréttin. Fyllerí þingmanna nýtur forgangs.

En um leið vil ég ekki vera ósanngjarn. Það vita allir að það er minni áhugi á erlendum málum. Þau skapa færri klikk, fá minna áhorf og svo framvegis. Og langflestir fjölmiðlar eru auðvitað fyrirtæki á markaði sem eru ekki í neinni góðgerðarstarfsemi fyrir almenning. Samt get ég ekki annað en velt þessu fyrir mér. Hvenær misstu Íslendingar áhuga á umheiminum? Er ekki nokkuð örugglega hægt að álykta að þjóðin var miklu betur að sér í alþjóðamálum vorið 1990 og 2000 en hún er í dag. Það þarf ekki annað en að skoða fjölmiðla frá þessum tíma og bera þá saman við það sem við sjáum í dag. Við því kynni einhver að segja að internetið hafi einfaldlega tekið við þessu hlutverki, en ég held að það sé í besta falli óskhyggja. Maður skyldi ekki vanmeta áhrif þess að geta lesið sér til um umheiminn á íslensku í fjölmiðlum sem dag hvern lýstu því yfir með forsíðuefninu að til þess að skilja sjálfan sig þurfi maður að byrja á því að skilja aðra.

Það er ekki langt síðan Alþingi ætlaði sér að banna umskurn drengja. Ekki veit ég hvað varð síðan um þetta lygilega frumvarp, en mér finnst líklegt að fólk í stjórnkerfinu eða fólk úti í heimi hafi að lokum komið viti fyrir stjórnmálamennina sem stóðu fyrir því og gert þeim grein fyrir hvað þau væru raunverulega að gera með þessu. Einhver í Framsóknarflokknum fékk þá flugu í höfuðið eina andvökunóttina að úti í heimi væri vont fólk að krukka eitthvað í kynfærin á nýfæddum drengjum og það væri Íslendinga að taka forystu í því að stöðva þennan hrylling. Þetta átti síðan bara að keyra í gegn, án nokkurrar umræðu eða uppfræðslu, það stóð til að banna með lögum mörg þúsund ára gamlan helgisið sem vill svo til að skiptir milljarða manna á heimsvísu svolitlu máli. Þótt það hafi ekki verið ætlunin þá var, með því að banna þennan helgisið, í raun efnislega verið að segja að menning þessa fólks væri ekki velkomin á Íslandi. Þessir milljarðar manna eiga það sömuleiðis sameiginlegt að hafa enga rödd á Íslandi enda á umskurn sér enga sögu á Íslandi. Þeirra sjónarmið heyrðust aldrei. 

Bálfarir ríflega helmingur. Hjólabretti og matartorg á Miðbakka. Salerniskort hafa opnað fólki dyr.

Lógískur endapunktur þessarar hugsunar er sá óþægilegi sannleikur að það sé einmitt svona sem fáfræði getur leitt af sér fyrirlitningu. Við könnumst eflaust flest við hugsun sem stundum er höfð eftir andalúsíska heimspekningnum Averroes á 12. öld. Fáfræði leiðir til ótta, ótti til haturs, og hatur til ofbeldis. Þú stendur frammi fyrir einhverju sem þú þekkir ekki og hefur enga reynslu af og býrð til þína eigin sögu í höfðinu um hvað það er. Og allt í einu er orðið til einnar blaðsíðu lagafrumvarp um að banna eitt af meginatriðunum í tveimur af mikilvægustu og elstu trúarbrögðum heims. En jæja, ég er kannski kominn út á hálan ís hérna. Ég er kannski að seilast fullllangt ef ég held því fram að sú staðreynd að hér á landi sé afar takmörkuð áhersla lögð á erlend málefni geti með tímanum leitt af sér ómeðvitaðar árásir Alþingis á aðra menningarheima gegnum lagafrumvörp. En kannski er það ekki svo fráleit ályktun. Kannski eru áhrifin lúmsk en um leið svolítið mikil og alvarleg. Að minnsta kosti er ekki hægt að búast við því að við höfum mjög fáguð eða vel ígrunduð viðhorf til flókinna alþjóðlegra mála eða annarra menningarsvæða þegar umheimurinn er ekki til.