„Það vita margir af þessu. Hann heitir náttúrulega Tindur sem er nafn sem er auðvelt að muna. En við erum alls ekkert feimin að tala um þetta í fjölskyldunni. Ég vil frekar að fólk komi upp að mér og spyrji bara út í þetta,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðskona í fótbolta. Bróðir hennar, Tindur Jónsson, sat samtals í tíu ár í fangelsi vegna líkamsárásar- og fíkniefnadóma.

„Þrátt fyrir að hann hafi farið í fangelsi er hann fyrirmyndin mín,“ segir Gunnhildur Yrsa og bætir við um þennan slæma tíma í lífi bróður síns. 

„Þetta er ekki það sem ég vil“

„Hann lenti illa í því. Tindur er einu ári eldri en ég og við vorum mjög náin. Það má segja að hann hafi lent í slæmum félagsskap. Hann var ótrúlega duglegur á þeim tíma sem hann sat inni og kláraði framhaldsskólann. Hann lauk svo tveimur háskólagráðum og á í dag sín eigin fyrirtæki.“ 

Gunnhildur Yrsa segist hafa getað nýtt þessa reynslu til góðs. „Fólk var náttúrulega mikið að tala um þetta. En þetta hvatti mig til að einbeita mér bara að fótboltanum og mínu. Njóta þess að gera það sem þú ert góður í. Tindur fór inn 18 ára og missir tíu ár úr lífi sínu og þá hugsaði ég: Þetta er ekki það sem ég vil.“

„Þetta þjappaði fjölskyldu okkar betur saman. Það var talað um þetta, við vorum ekki lokuð með hans mál. Þrátt fyrir að það hafi ekki verið gaman fyrir bróður minn að sitja inni í tíu ár þá lærði hann mikið af þessu og er allt annar maður í dag en hann var þegar hann fór inn.“

Hörkutól úr dreifðum átta systkina hópi

Gunnhildur Yrsa var fyrirliði Stjörnunnar í Garðabæ þegar liðið vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil árið 2011 en hún er í dag atvinnumaður hjá Vålerenga í Noregi. Hún er þekkt fyrir að gefa ekkert eftir inni á vellinum en hún ein af átta systkinum.

„Fjölskylda mín er þekkt fyrir að  vera ekki alveg svona „normal“ fjölskylda. Ég á sex yngri systkini og einn eldri bróður. Ég þekki ekkert annað en að vera með mikinn hamagang í kringum mig og jólin eru náttúrulega bara geðveiki,“ segir Gunnhildur Yrsa og glottir. Móðir hennar er læknir í Bandaríkjunum en faðir hennar á og rekur auglýsingastofu í Reykjavík. 

„Fimm af systkinum mínum búa í Flórída með mömmu og svo á ég systur og bróður sem búa í Reykjavík. Sjálf er ég svo í Noregi þannig að við erum svona dreifð út um allt,“ segir Gunnhildur sem bjó sem barn og unglingur í Bandaríkjunum þegar móðir hennar stundaði sérnám í lækningum. 

Á mjög erfitt með að horfa á 90 mínútna fótboltaleik

„Og þar byrjaði ég að æfa fótbolta. Ég kom svo alltaf heim til Íslands á sumrin og spilaði með Stjörnunni. Það var frábært að koma heim og hitta vinkonur sínar og spila á mótum í Vestmannaeyjum og fleira,“ segir Gunnhildur sem þykir þó ekkert sérstaklega gaman að horfa á fótbolta sjálfri.

„Ég horfi ekki mikið á fótbolta. En ég les mikið um fótbolta og fylgist með, horfi á klippur úr leikjum og svoleiðis. En að horfa á 90 mínútur af fótboltaleik er mjög erfitt fyrir mig.“

Gunnhildur Yrsa verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á EM í Hollandi í sumar en mótið verður sýnt á RÚV. Fyrsti leikur er gegn Frakklandi í Tilburg 18. júlí.

Horfðu á innslagið með Gunnhildi Yrsu í spilaranum hér að ofan en það er úr þættinum Leiðin á EM sem er á dagskrá RÚV 19:35 alla þriðjudaga fram að EM.