„Hvað er álitsgjafinn eiginlega?“ spyr Halldór Armand í pistli þar sem hann efast um eigið hlutverk. „Hvaða hlutverki gegnir hann raunverulega? Er hann eitthvað sem stuðlar að frjálsri hugsun og eðlilegum skoðanaskiptum í lýðræðisþjóðfélagi, eða er hann einfaldlega leið til þess að lyfta lokinu aðeins á bullsjóðandi potti?“
Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:
Í áranna rás hef ég tekið eftir því hvernig afstaða fólksins kringum mig til jóla og áramóta hefur breyst. Sömuleiðis hjá sjálfum mér. Þegar ég var yngri gat ég ekki skilið hvernig nokkrum manni gat líkað illa við jól, hvað þá áramót. Í dag skil ég það mjög vel. Jólin geta verið erfið af ýmsum ástæðum, en auðvitað einna helst vegna þess að þetta er árstími þar sem þér á að líða vel, hamingju- og lífsfyllingaráróðurinn dynur á okkur bókstaflega úr öllum áttum, sem verður svo til þess að jólin eru einmanalegasti tími ársins fyrir marga, áminning um það sem þeir hafa ekki, njóta ekki, eða höfðu einu sinni, nutu einu sinni, en ekki lengur. Jólin eru staðfesting á þeirri traustu speki að allar ástarsögur eru draugasögur – jólin eru höll minninganna og þegar maður hefur séð plántuna Satúrnus sindra í annað skiptið yfir höfði sínu kemst maður ekki hjá því að vita að yfirleitt er reimt í þessari höll.
Endurkoma Satúrnusar er fyrirbæri sem ég hef lengi heillast af. Í stjörnuspeki er þetta augnablikið þegar plánetan Satúrnus snýr aftur á sama stað á himni og hún var á þegar þú fæddist. Hvenær gerist þetta? Sirkabát milli 29 og 30 ára aldurs, það er að segja, það er þá sem Satúrnus snýr aftur í nákvæmlega sömu hnit og hann var í við fæðingu, en yfirleitt er litið svo á að Satúrnusaráhrifin byrji seint á því sem á íslensku er af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kallað þrítugsaldur, það er að segja, kringum hina þekktu tölu 27.
Endurkoma Satúrnusar táknar síðasta skrefið inn í fullorðinsár sem yfirleitt fer fram gegnum eldskírn af einhverjum toga, oftar en ekki einhvers konar erfiðleika. Svo ég spyr hlustendur sem hafa náð þessum aldri að gamni: Kom eitthvað fyrir ykkur á þessum aldri, sirka milli 27 og þrítugs, sem þið sjáið eftir á að hyggja, að var það sem endanlega útskrifaði ykkur úr barnæskunni? Funduð fyrir nærveru Satúrnusar í lífi ykkar? Sáuð þið þessa fölu plánetu einhvern tímann sindra yfir höfði ykkar?
Gamla fólkið er framtíðin
Góðu fréttirnar eru þær að í seinni endurkomu Satúrnusar, sem á sér stað í kringum sextugt, þá heldur maður víst, loksins, inn í stig þroskans. Og í þeirri þriðju, sem gerist kringum 85 ára aldur, þá nær maður loksins inn á stig viskunnar. Samkvæmt þessari heimsmynd ætti eldra fólk þess vegna að hafa miklu sterkari rödd í samfélaginu, svona eins og tíkaðist í klassíska heiminum, og ég sjálfur tek hjartanlega undir það. Ég sný upp á viðtekna hugsun samtímans og segi: Framtíðin er ekki unga fólkið, heldur gamla fólkið. Ef við viljum heyra eitthvað viturlegt um framtíðina, ættum við frekar að spyrja einhvern sem er 85 ára, en einhvern sem sem er 16 ára. Ungt fólk á að njóta þess að upplifa og þannig skapa sína eigin fortíð, ef svo má að orði komast, og eldra fólk á að hugsa um framtíðina. Sá sem skapar framtíðina, ætti fyrst að hafa skapað fortíðina.
En hvað veit ég, mín Ódysseifsferð til lands þroskans, er rétt að hefjast.
Nýr áratugur er handan við hornið. Sá gamli hverfur út í svartnættið, eins og árið, eins og dagurinn, eins og tíminn – allt hverfur, en svo snýr allt aftur. Brátt taka að birtast alls konar ársuppgjör og samfélagið og heimurinn allur reynir að mynda sér afstöðu um það sögutímabil sem nú reimar skóna í anddyrinu, þakkar fyrir sig og býst til þess að halda með ferðatöskurnar út í myrkrið. Vegna þess að þetta er tími uppgjörsins, tíminn til þess að líta, þó ekki nema augnablik í eigin barm, tek ég mér það leyfi að enda þennan síðasta pistil ársins, áratugarins, á því að fjalla stuttlega um viðfangsefni, sem hefur verið mér nokkuð hugleikið allar götur síðan ég skrifaði minn fyrsta blaðapistil – löngu áður en ég sá Satúrnus skína yfir höfði mínu – nefnilega viðfangsefnið pistlaskrif, það að hafa skoðun, hlutverkið álitsgjafa.
Já, ég veit að þetta er sjálfhverft, en ég bið ykkur um að sýna mér þolinmæði í anda jólanna, það er punktur framundan.
Einföld heimsmynd virkar best
Ég velti því stundum fyrir mér, eða nei, ég ætla ekki að ljúga, ég velti því oft fyrir mér, ítrekað jafnvel, hvort það að segja skoðun sína opinberlega eins og ég geri, jafnvel gagnrýna annað fólk, stinga á kýlum eins og það er stundum kallað, hafi eitthvert raunverulegt gildi.
Allir pistlahöfundar vita til dæmis að þau skrif sem fá langsamlega mest viðbrögð eru oftar en ekki um pólitík. Og það verður að segjast eins og er að því yfirborðskenndari og meira einhliða sem skrif um pólitík eru, því ríkulegri eru viðbrögðin. Því einfaldari sem heimsmyndin er, því barnlegri, því fleiri eru deilingarnar. Þetta hefur án nokkurs vafa áhrif á það hversu skotgrafakennd umræða um pólitík er oft.
En alvarlegasta ásökunin sem ég beini að sjálfum mér í hlutverki álitsgjafa er að stuðla hugsanlega óvart að áframhaldandi status kvó. Ég fæ nefnilega oft á tilfinninguna – sérstaklega eftir að hafa skrifað eitthvað sem við getum kallað gagnrýnið sjónarhorn á íslenskt samfélag – að mín rödd, mín viðhorf, mín sjónarmið, séu nú þegar algjörlega innbyggð í kerfið sem þau ætla sér að gagnrýna, að hlutverk mitt sem andstæðingur status kvó, stuðli þrátt fyrir allt að og verndi status kvó. Það er ekki góð tilfinning. Einfalt dæmi um þetta væri þegar eitthvað vafasamt gerist í íslenskum stjórnmálum sem vekur hneykslan og einhver eins og ég fjallar síðan um það á gagnrýninn hátt opinberlega. Síðan breytist að sjálfsögðu aldrei neitt, því það breytist aldrei nokkurn tímann neitt, nema fólk fylki liði á Austurvöll.
Er álitsgjafinn alltaf snuð?
Ég spyr: Hvað er álitsgjafinn eiginlega? Hvaða hlutverki gegnir hann raunverulega? Er hann eitthvað sem stuðlar að frjálsri hugsun og eðlilegum skoðanaskiptum í lýðræðisþjóðfélagi, eða er hann einfaldlega leið til þess að lyfta lokinu aðeins á bullsjóðandi potti, hleypa út smá gufu, svo allt geti haldið nákvæmlega eins áfram? Einu sinni flutti ég hér pistil þar sem ég sakaði bandaríska spjallþáttastjórnendur á borð við Trevor Noah og John Oliver um að vera hluti af vandamálinu, sem þeir þykjast berjast gegn. Ég sagði þá látast vera einhvers konar andspyrnuhreyfing gegn Trump, en í raun væru þeir ekkert nema snuð fyrir áhrifalausa menntamenn. Og hér í naflaskoðun áramótanna lít ég í spegilinn og spyr: Gildir það ekki það nákvæmlega sama um mig? Talsvert minna snuð vissulega, en einhvers konar snuð samt sem áður, snuð sem kallast áhrifalaus menntamaður í útvarpinu, snuð sem góður vinur minn myndi kalla gasmann.
En það sem er ógeðfelldast við hlutverk álitsgjafans – eða gasmannsins – ef svo má að orði komast, það sem gerir hann að snuði, það sem gerir hann næstum því sjálfkrafa að hræsnara, er sú staðreynd að hann ber, þegar allt kemur til alls, ekki ábyrgð á neinu, þar með talið sínum eigin orðum. Hér get ég tekið ýkt og súrrealískt dæmi. Segjum sem svo að íslenska ríkisstjórnin myndi einhvern tímann á komandi áratug byrja að íhuga að gera innrás í Færeyjar. Gefum okkur síðan að ég myndi, sem álitsgjafi, lýsa yfir miklum stuðningi við þessi áform og byrja að útlista í ríkisútvarpinu efnahagslega, menningarlega og þjóðfélagslega kosti þess að innlima Færeyjar í lýðveldið Ísland. Gefum okkur að þetta myndi síðan gerast – Íslendingar myndu bókstaflega ráðast inn í Færeyjar og reyna að leggja þær undir sig með tilheyrandi blóðbaði og hryllingi. Hvaða afleiðingar hefði þetta fyrir mig? Engar. Þvert á móti myndi ríkisstjórnin líklega verðlauna mig einhvern veginn fyrir framlag mitt til samþykkisframleiðslunnar mikilvægu.
Svo, ég myndi, á vissan hátt, óbeint, bera ábyrgð á blóðbaði og dauða í öðru landi, en það myndi aldrei hafa neinar afleiðingar fyrir mig. Ég veit að þetta er fráleitt dæmi, en það er samt lýsandi. Það sama gildir um öll önnur álitamál. Þegar ég set mig í stellingar gagnrýnandans, þá get ég hér um bil sagt hvað sem er, en orðum mínum fylgir engin raunveruleg ábyrgð, ég þarf ekki að standa við þau, eða raungera afstöðuna á nokkurn hátt, það er ekkert í húfi fyrir mig, ég er bara áhrifalaus og ábyrgðarlaus menntamaður í útvarpinu, gasmaður, og sú siðferðilega ábyrgð sem ég ber, kemur einungis frá sjálfum mér – í innri siðheimi álitsgjafans er ég bæði rósaræktandinn og hæstaréttardómarinn.
En … hér er ég auðvitað að gerast sekur um það sem ég nefndi áðan, einhliða umfjöllun sem birtir ekki nógu fágaða og margvíða sýn á viðfangsefni sitt, ekki í fyrsta sinn, ekki í síðasta sinn.
Allavega, þetta er nóg af sjálfsvorkunn í bili, naflaskoðun lokið.
Ég óska öllum hlustendum Lestarinnar nær og fjær gleðilegra jóla.
Megi heillastjarnan skína skært yfir höfði ykkar á nýju ári.