„Það er mikilvægast að starfsfólkið hafi gott vald á ensku," þetta segir einn eigenda krárinnar Dubliners. Um 80% starfsmanna þar eru erlendir og þeir tala ekki allir íslensku. Það hafa aldrei verið fleiri erlendir ríkisborgarar á íslenskum vinnumarkaði. Sumir staldra stutt við og það að kenna starfsmönnum að segja góðan daginn og vertu bless er ekki alltaf efst á forgangslista atvinnurekenda.

Enska gæti orðið aðaltungumálið á kaffihúsum og veitingastöðum hér á landi án þess að nokkur fengi rönd við reist - enn er það þó ekki raunin.

Ekki er vitað hversu algengt er orðið að starfsfólk kaffihúsa og veitingastaða tali einungis ensku. Spegillinn labbaði inn á nokkra staði í miðborg Reykjavíkur í dag og hitti þar bæði íslenska og erlenda starfsmenn. Hlýða má á pistilinn í heild í spilaranum hér fyrir ofan. 

Námið orðið of dýrt fyrir suma

Agata frá Póllandi hefur búið á Íslandi í yfir tíu ár og hefur fyrst og fremst unnið við að þjóna á veitingastöðum. Nú vinnur hún á Apótekinu. Hún hefur lokið fjórum kúrsum í íslensku án stuðnings vinnuveitanda. Hún segir að kúrsarnir hafi í þá daga verið ódýrir, nú sé verðið þannig að margir ráði ekki við það, það sé kannski ekki sanngjarnt, en fólk geti leitað til stéttarfélaga. Agata talar aðallega ensku í vinnunni, bæði við samstarfsfólkið og erlenda gesti, en hún leggur upp úr því að tala íslensku við Íslendinga. 

Grunnurinn sé einfaldur, takk, gjörðu svo vel, að þekkja matseðilinn. Stundum spjallar hún við fólk en það gefst sjaldnast tími til þess. Hún hefur ekki orðið vör við að Íslendingar taki því illa þegar þjónar tala ensku, ekki núna, frekar fyrst eftir hrun. Ég man hvernig þetta var fyrir tíu árum síðan, segir hún, þá var ég að vinna á Kaffi París og það voru svo margir erlendir þjónar sem töluðu bara ensku. Ég held að þessi tími sé að koma aftur. Þá hafi verið uppgangur og öllum sama, eftir hrun hafi allt breyst og meira þrýst á starfsfólk að læra íslensku. 

Þurfa að geta skilið drukkna Íra

Steve Roberts frá Englandi er einn eigenda írska barsins Dubliners í miðbæ Reykjavíkur. Hann segir að um 80% starfsfólksins sé erlent og um helmingur þess geti talað íslensku við viðskiptavini. Þeir sem ekki tala íslensku geti alltaf kallað einhvern til sem geti það. Fólk kippi sér ekki upp við þetta. Hann man eftir einum eldri manni sem sýndi dónaskap en það er allt og sumt. Svo njótum við góðs af því að vera írskur bar, segir hann. En er íslenskukunnátta mikilvæg? „Það er mikilvægt að þau reyni, að þau skilji svolítið í íslensku en það skiptir meira máli að starfsfólkið sé kurteist, segi: afsakið, talarðu ensku? Það sem allra mestu máli skiptir er góð enskukunnátta, í gær voru hér 70 írskir fótboltaaðdáendur og maður þarf að vera fær í ensku til að skilja þá, svona eftir nokkra drykki." 

Fyrirtækið hefur ekki stutt starfsmenn til náms en Roberts segir að það aðstoði starfsfólk við praktíska hluti, svo sem að átta sig á skjölum á íslensku. Þá sé fólki sem vill fara á námskeið gert kleift að aðlaga vaktaplanið að því. 

7500 erlendir starfsmenn í ferðaþjónustu

„Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að fá Íslendinga til að starfa í þjónustugeiranum,"segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Mest sé þörfin í ferðaþjónustunni. 
Samtök ferðaþjónustunnar áætla að 7500 erlendir starfsmenn starfi í ferðaþjónustu hér á landi í ár. Alls starfa 25 þúsund í greininni.

Ekki hægt að gera kröfu um íslenskukunnáttu

„Ferðaþjónustan er í eðli sínu alþjóðleg atvinnugrein. Það er ekki hægt að gera kröfu um íslenskukunnáttu þegar kemur að erlendu vinnuafli. Það er gríðarlega erfitt að manna stöður, sérstaklega á landsbyggðinni og mikil eftirspurn eftir fólki," segir Skapti Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann bendir á að erlendir ferðamenn séu stór hluti kúnna á veitinga- og kaffihúsum. Þá séu níu af hverjum tíu sem ferðast um Ísland erlendir ferðamenn. 

Bæði Andrés og Skapti tala um að starfsmenn geti sótt í starfsmenntasjóði, þá segja þeir að mörgum atvinnurekendum finnist mikilvægt að starfsmenn læri íslensku og séu tilbúnir að styðja við þá. Skapti segir að erfitt sé að gera kröfu um að þeir sem staldra stutt við læri íslensku á nokkrum mánuðum, þá vilji sumir frekar einbeita sér að því að læra ensku. Hann segir að samtökin séu að leita leiða til þess að færa námið til starfsmanna. Hann segir að ábyrgðin á því að starfsmenn læri íslensku liggi að einhverju leyti hjá vinnuveitanda en ekki síst hjá starfsmönnunum sjálfum.  

Verður ekki vör við áhuga atvinnurekenda

„Í gegnum tíðina hef ég ekki orðið mikið vör við áhuga fyrirtækja í þjónustugeiranum á sérstökum námskeiðum fyrir sitt starfsfólk."

Þetta segir Sólborg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Mími. Hún segir að í ýmsum öðrum geirum hafi það nýverið færst í aukana að fyrirtæki og stofnanir óski eftir starfstengdum íslenskunámskeiðum fyrir starfsfólk sitt sem þá eru haldin á vinnutíma á vinnustaðnum. Þetta eigi til dæmis við um Landspítalann og ýmis framleiðslufyrirtæki. Hún segir að áhugi atvinnurekenda í þjónustugeiranum á íslenskunámskeiðum starfsfólki til handa hafi verið lítill, bæði fyrir og eftir hrun. Það geti þó vel verið að fólkið sjálft sé að sækja námskeið og fyrirtækin greiði fyrir það. Hún hefur samt ekki orðið mikið vör við það. Hún segir vaktatöflur starfsmanna í þjónustustörfum gera þeim erfitt fyrir að sækja námskeið. Þess vegna væri best fyrir þá að sækja sérsniðin námskeið þar sem farið væri yfir grunnorðaforðann sem til þarf. 

Hvetur fólk til að svara á íslensku

Sólborg hvetur atvinnurekendur til að gefa starfsfólki tækifæri til að fara á íslenskunámskeið eða halda slíkt námskeið á vinnustaðnum. Þá hvetur hún Íslendinga sem sækja kaffihús og veitingastaði til þess að tala íslensku við erlent starfsfólk. Fólk byrji að skilja orð í nýju tungumáli löngu áður en það fari að geta tjáð sig. Skilji orð eins og kaffi og kaka eftir nokkra daga. 

„Alveg sama þótt fólk svari á ensku, muna bara að vera kurteis, sýna skilning."

Þetta segir hún að verki hvetjandi á starfsfólk og atvinnurekendur.

Minna álag, meiri gagnrýni

Rúnar Helgi Haraldsson, forstöðumaður fjölmenningarseturs, segir að sér virðist sem atvinnurekendur leggi ekki mikla áherslu á íslenskukennslu um þessar mundir. Hraðinn í ráðningum sé slíkur. Hann hefur þó engin haldbær gögn um þetta og segir að það þyrfti að rannsaka stöðuna betur. 

Áhrifin á starfsfólkið séu tvíbent. Það létti vissu álagi af erlendu starfsfólki þegar ekki er gerð krafa um íslenskukunnáttu en það geti líka gert það útsettara fyrir gagnrýni og dónaskap af hálfu Íslendinga sem ekki eru ánægðir með að vera ávarpaðir á ensku. Við búum í fjölmenningarsamfélagi og verðum að sýna öðrum skilning, segir Rúnar. 

Rannsókn frá árinu 2015 sýndi að innflytjendur hér verða fyrir hversdagsfordómum, til dæmis eru gerðar athugasemdir við íslenskukunnáttu þeirra.

Vill að stjórnvöld geri betur

Hann segir að stjórnvöld mættu setja sér markvissari stefnu um íslenskunám útlendinga. Það þurfi að leggja mun meiri peninga í þetta verkefni og bæði stjórnvöld og atvinnulíf þurfi að stíga fram með ákveðnari hætti. Það sé auðvelt að gleyma sér þegar hraðinn í atvinnulífinu er mikill en það verði að veita fólki tækifæri til þess að aðlagast. 

„Þegar vinnuálag er mikið, þetta er dýrt og fólk á ekki kost á að fara á vinnutíma þá erum við ekki að gera fólki auðveldara fyrir."

Framlögin staðið í stað þrátt fyrir fjölgun

Fjárframlög ríkisins til íslenskukennslu fyrir útlendinga nema í ár 157 milljónum, þau hafa haldist svipuð að raunvirði síðastliðin ár þrátt fyrir að útlendingum á vinnumarkaði hafi fjölgað. Árið 2007 var fjárveitingin nokkuð hærri en í dag, árið 2008 var hún tvöfölduð en eftir það var dregið skarpt úr. Ármann Jakobsson, varaformaður Íslenskrar málnefndar segir andvaraleysi hafa ríkt hjá stjórnvöldum undanfarna áratugi. Hér má sjá þróunina frá 2007 til 2017. 

Lítið á lögunum að græða

Samkvæmt lögum um íslenska tungu eiga stjórnvöld að tryggja að unnt sé að nota íslensku á öllum sviðum þjóðlífs og að allir sem búsettir eru hér á landi eigi þess kost að læra hana. 

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, segir lítið á lögunum að græða. Þar sé ekkert um hvað sé átt við með öllum sviðum eða hvernig stjórnvöld ættu að framfylgja lögunum. Það séu engin viðurlög. Eiríkur segist raunar lítt hrifinn af boðum og bönnum, það væri ekki æskilegt að skikka fólk til þess að tala íslensku. Í lögum um viðskiptahætti segir að auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skuli vera á íslensku. Þá eigi skilmálar þjónustuaðila sem bjóða neytendum þjónustu sína hér á landi að vera á íslensku. Hvergi er að finna neitt um að Íslendingar eigi rétt á því að fá sig afgreidda á íslensku á kaffihúsum eða veitingastöðum. Eiríkur segir að enskan sé ekki óvinurinn. Það sem skipti máli sé meðvitund Íslendinga um að það sé ekki sjálfgefið að 330 þúsund manna þjóð tali sitt eigið tungumál. Það sé fyrst og fremst hugsunarleysi Íslendinga og umburðarlyndi þeirra gagnvart því að íslenskan sé víkjandi sem gæti orðið málinu að falli. Það sé einhver minnimáttarkennd í okkur, við höldum að enskan sé betri. Hann telur að það gæti haft áhrif á viðhorf okkar til íslenskunnar, fari enskan að verða viðtekin á veitingastöðum og í verslunum. Enskan gæti farið að hasla sér völl víðar án þess að við tækjum eftir því og ef hún verður ráðandi í opinberu lífi er ljóst að íslenskan lifir ekki af, segir Eiríkur.