Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, segir að ekki sé búið að finna út hvernig e.coli bakterían barst í börnin sem hafa veikst og óvíst hvort það takist. Þó sé vitað að sama baktería og börnin sýktust af hafi fundist í kálfunum og í kálfastíunni í Efstadal II. Stíunni hafi verið lokað og verklagsreglur hertar á bænum. Alls hafa 16 börn veikst af e.coli.
Sigrún segir að faraldsfræðilega hafi allt bent til þess að þau hefðu smitast af ísnum, því fyrstu börnin sem veiktust hafi átt það sameiginlegt að hafa borðað ísinn á bænum. Það taki nokkra daga fyrir smit að koma fram. Svo þegar fleiri börn, sem hafi verið á bænum 29. júní, fóru að veikjast hafi þurft að grípa til frekari aðgerða.
Heilbrigðiseftirlitið tók fyrst sýni úr hamborgurum og ís í Efstadal fyrir um tveimur vikum, sem bæði voru neikvæð. Þegar fleiri börn greindust með sýkinguna fór Matvælastofnun ásamt heilbrigðiseftirlitinu á staðinn, 4. júlí. Þá fannst fyrst e. coli-smit, í saur kálfa.
Alls hafa nú 16 börn verið greind með e. coli sýkinguna. Börnin eru á aldrinum 14 mánaða til 4 ára. Þá hefur um þriðjungur starfsmanna í Efstadal II verið rannsökuð og greindist enginn þeirra með bakteríuna. Fjögur börn greindust í dag og fara í eftirlit á Barnaspítala Hringsins samkvæmt upplýsingum frá Landlækni. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir þetta löngu orðið að faraldri. Búið sé að grípa til ýmissa aðgerða til að reyna koma í veg fyrir að fleiri smitist.
Aðspurð um hvernig heilbrigðiseftirlitið hafi brugðist við segir Sigrún að kálfastíunni hafi verið lokað og allar verklagsreglur verið hertar á staðnum.
Bakteríuna megi finna alls staðar
„Þessi baktería er alls staðar og þetta er ekki eini staðurinn sem er með svona svipaða starfsemi,“ segir Sigrún. Dýr geti verið heilbrigð þótt þau séu með e.coli bakteríu í sér.
„Það sem við getum gert er að herða reglur. Borða ekki á sama svæði og dýrin eru og þvo sér um hendur þegar maður er búinn að snerta dýrin. Það er óhjákvæmilegt að bakteríuflóra fylgi heilbrigðum dýrum sem getur valdið sýkingum hjá fólki. Fólk þarf að hafa í huga þessa hættu á að smitast af dýrum. Dýrin láta frá sér saur þar sem þau standa og eru jafnvel að drekka úr pollum sem eru mengaðir af skít.“
Leiðbeiningar birtar og haft samband við ferðaþjónustu
Sigrún segir að heilbrigðiseftirlit á fleiri stöðum á landinu hafi haft samband til að fá leiðbeiningar. Á heimasíðunni verði birtar leiðbeiningar um hvernig hægt sé að koma í veg fyrir svona lagað. Til dæmis að ekki sé hægt að þvo sér of oft um hendurnar.
Sigrún segir að orðsending hafi verið send á ferðaþjónustufyrirtæki til þess að reyna að ná til ferðamanna sem gætu hafa heimsótt bæinn.
Sunna Valgerðardóttir fréttamaður ræddi við Sigrúnu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlitsins á Suðurlandi. Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.