Enn er óljóst hverja afleiðingar verða af uppátæki meðlima Hatara en tóku upp palestínska fánann á Eurovision í Tel Aviv í Ísrael í gær. Felix Bergsson fararstjóri íslenska hópsins hefur ekkert heyrt frá fulltrúum keppninnar í dag vegna málsins.

Þetta sagði Felix í viðtali við Björn Malmquist fréttamann RÚV í Tel Aviv í kvöldfréttum.

Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva gáfu það út í dag að málið væri skoðað alvarlega.

Jon Ola Sand framkvæmdastjóri Eurovision ræddi við Felix strax eftir atvikið í gær og tjáði honum að afleiðingar yrðu af málinu. Hann segist ekki hafa heyrt í Sand eða fulltrúum samtakanna í dag en sagði í viðtali fyrr í dag að vonandi yrðu þær ekki alvarlegar.

Felix segist hafa látið vita Sand af því að hann væri í Tel Aviv í dag og reiðubúinn að ræða málið frekar við hann eða fulltrúa samtök evrópskra sjónvarpsstöðva. Felix segist ekki hafa heyrt í neinum frekar varðandi uppákomuna.