Óvíst er hvenær samningar takast á opinbera vinnumarkaðnum. Samningar hafa verið lausir í rúma fimm mánuði og svo virðist sem enn hafi ekki verið samið um veigamikil atriði. Ekki hefur verið samið um launahækkanir né heldur um hvernig staðið verður að styttingu vinnuvikunnar.

Þó að samningar opinberra starfsmanna hafi losnað 1. apríl er ekki útlit fyrir að samið verði á allra næstu dögum, vikum eða jafnvel mánuðum. Samningaviðræður standa yfir á nokkrum vígstöðvum. Ríkið er í viðræðum við 20 félög innan BHM, aðildarfélög BSRB, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, kennara og starfsmenn innan raða ASÍ sem starfa hjá ríki eða sveitarfélögum.

Ríkið var stór þátttakandi í Lífskjarasamningnum sem gerður var á almenna vinnumarkaðnum apríl. Hann miðast í raun við að aðrir semji á sömu nótum. Hendur ríkisins eru því bundnar og erfitt fyrir það að skrifa undir kjarasamninga sem ganga í allt aðra átt en Lífskjarasamningurinn þar sem samið var um krónutöluhækkanir.

Hafna krónutöluhækkun

Ástæðan fyrir því að samningar geta enn dregist á langinn er að enn hefur ekki verið samið um sjálfan launaliðinn. Háskólamenn hafa algjörlega hafnað því að samið verði um krónutöluhækkun eins og gert var á almenna vinnumarkaðnum. Þar var samið um 17 þúsund króna hækkun á þessu ári sem þeir telja að feli í sér kjararýrnun og muni riðla launatöflum sem nýbúið er að semja um. Krafa þeirra hljóðar upp á að lágmarkslaun fyrir háskólamann með BS-gráðu verði 500 þúsund krónur á mánuði. Speglinum er ekki kunnugt um hverjar kröfur kennara eru en gera má ráð fyrir að þeir séu á sama báti og háskólamenn innan BHM.

Hins vegar er annað hljóð innan BSRB og ekki víst að launaliðurinn verði stóra vandamálið. Þar hefur verið rætt um að semja á sömu nótum og gert var á almenna vinnumarkaðnum. Jafnvel að farin verði blönduð leið. Prósentuhækkanir verði á efri launaflokka, hugsanlega 3,7%. En um þetta á eftir að semja.

Vinnuvikan í 36 stundir

Það var samið um styttingu vinnuvikunnar á almenna markaðnum og það er líka stefnt að því í samningum við opinbera starfsmenn. Í viðræðunum er tekist á um hvernig standa á að styttingu vinnuvikunnar og hvernig hægt er að heimfæra styttinguna hjá vaktavinnufólki. Rætt er um að vinnuvikan verði stytt í 36 stundir. Undanfarnar vikur hefur sérstakur vinnuhópur verið að störfum um vaktavinnuna. Í honum sitja fulltrúar stéttarfélaganna og ríkisins og sveitarfélaganna. Þar hefur verið varpað fram ýmsum hugmyndum sem nú eru ræddar innan félaganna og hjá ríkinu en engar ákvarðanir hafa verið teknar. Meðal hugmynda er að vinnutími vaktavinnufólks verði 36 stundir og að lengd vakta verði átta klukkustundir eins og nú er. Hugmyndin er að vaktavinnufólk vinni færri vaktir á mánuði en áður. Ýmsar hugmyndir eru um vaktaálag, að það geti verið mismunandi eftir dögum og hvenær sólarhrings vaktirnar eru. Einnig eru varpað fram hugmyndum um að vaktavinnufólk fái aukinn frítíma.

En niðurstaða hefur ekki fengist þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar. Hvorki innan BSRB né BHM eru menn tilbúnir að selja kaffitíma og önnur gæði í skiptum fyrir styttinguna. Í tilraunaverkefni sem ráðist var í innan raða BSRB var vinnuvikan stytt án þess að launafólk gæfi fá sér áunnin réttindi eins og kaffitíma sem er samtals 35 mínútur á dag. Krafan er að vinnuvikan verði stytt án þess að gefa annað eftir.

Breytingar á orlofi

Í Speglinum hefur verið sagt frá því að þegar er ljóst að orlof allra ríkisstarfsmanna verði 30 dagar. Það helgast af ákvæði í tilskipun ESB og lögum sem Alþingi hefur samþykkt um bann við mismunun á vinnumarkaði. Samkvæmt þeim er bannað að mismuna launamönnum vegna aldurs. Opinberir starfsmenn verða að vera orðnir 38 ára til að fá 30 daga orlof. Þessu verður breytt.

                              Krafa um að allir fái 30 daga sumarfrí

Ríkið vill að samið verði um breytingar á vetrarorlofi. Reglurnar núna eru þannig að 25 prósenta álag leggst á orlof sem tekið er utan hefðbundins sumarorlofstíma. Ríkið vill að þessi réttur falli niður ef launamaðurinn hefur sjálfur ákveðið að taka frí á þessum tíma en haldi réttindunum ef atvinnurekandinn hefur skikkað hann í frí á þessum tíma. Sama eigi líka að gilda um fyrningu orlofs. Reglurnar eru þær að orlofstímar umfram tvöfalt orlof falla dauðir niður. Þeir munu ekki gera það ef orlofið hefur hlaðist upp vegna atbeina atvinnurekandans.                   

Jöfnun launa

Það á líka eftir að semja um annað stórt mál, jöfnun launa milli markaða. Sérstakt ákvæði er um að það verði gert, í samningi sem gerður var á sínum tíma þegar lífeyrisréttindi á vinnumarkaði voru samræmd. Sérstakur hópur er að störfum sem bráðlega skilar tillögum. Af hálfu stéttarfélaganna er talið mikilvægt að tekið verði á þessu máli í tengslum við gerð kjarasamninga. Að minnsta kosti verði ákveðið að taka einhver skref í átt að jöfnun.

Mismikil bjartsýni

En hvenær verður samið? Viðmælendur Spegilsins eru misbjartsýnir. Allt frá því að ekki verði samið fyrir áramót og að samningar séu á næstu grösum. Líklegt að samningar takist í næsta mánuði. Hins vegar er ekki byrjað að tala um að vísa deilunum til sáttasemjara. Með því styttist leiðin í að geta hótað aðgerðum ef viðræður hjá sáttasemjara bera engan árangur. Innan BHM, að minnsta kosti í öðrum hópnum sem semur fyrir hönd átta félaga, hefur verið farið fram á að samið verði til eins árs. Tíminn verði svo notaður til að ljúka vinnu í tengslum við styttingu vinnuvikunnar.