Ástin getur unnið gegn konum ef þær setja sjálfa sig sífellt í annað sæti og láta þarfir annarra ganga fyrir sínum eigin segja Brynhildur Björnsdóttir og Annadís Rúdólfsdóttir.

Þær fluttu fyrirlestra um ástina á vegum Íslenska ástarrannsóknafélagsins í Þjóðarpspeglinum, ráðstefnu í félagsvísindum, á dögunum. Að Hinu ís­lenzka ástar­rann­sókn­ar­fé­lagi stend­ur hópur kvenna sem nema og starfa við Háskóla Íslands, með bak­grunn í heim­speki, kynja­fræði og sagn­fræði svo dæmi séu tekin.

„Samfélagið leggur áherslu á að karlar séu skuldbindingafælnir en konur þrái ástina. En rannsóknir sýna að konur sem eru ekki í sambandi eru hamingjusamari, minna kvíðnar, koma meiru í verk og fá meira út úr lífinu. Meðan karlmenn sem eru ekki í sambandi eru óheilbrigðari, óhamingjusamari, fátækari og njóta minni starfsframa. Þannig í rauninni ætti þetta að vera öfugt,“ segir Annadís Rudólfsdóttir.

Ástin smyr hjól atvinnulífsins

Brynhildur og Annadís segja ást kvenna vera mikilvægan kraft í samfélaginu sem sé ekki metinn að verðleikum. „Ástin er grunnurinn að gríðarlegu framlagi en sá kraftur er ekki metinn hagfræðilega. Hún smyr hjól sem þurfa að snúast til að öll hin  hljólin í samfélaginu snúist.“ Þær segja ástina vera hluta af ósýnilega hagkerfinu, eins og heimilisstörf. „Hún er ósýnilega hagkerfið sem liggur á bak við öll hin og grunnurinn að velferðarkerfinu. Þegar það er skorið niður í velferðarkerfinu taka konurnar við, oft í nafni ástarinnar. Þær sjá um umönnun ef kerfið stendur sig ekki. Þess vegna er það svo femínískt mál að vera með sterkt velferðarkerfi.“

Óplægður rannsóknarakur

Annadís og Brynhildur segja ástina vera óplægðan rannsóknarakur miðað við hvað hugmyndin um rómantíska ást sé miðlæg í menningu okkar og hversu mikið hún tengist neyslu. „Ef kynlíf selur körlum þá selur rómantísk ást konum. Með því að tengja hvaða vöru sem er rómantík, þá ertu komin með tengingu sem er svo eftirsóknarverð, kveikir svo mikla þrá, að þú getur selt hvað sem er.“

Ósýnilega ástarhagkerfið

Þær segja hugmyndafræðina um rómantíska ást sé alin miklu  meira upp í stelpum en strákum, til dæmis í Disneymyndum um prinsessur og það sé ástæða fyrir því. „Með auknu jafnrétti eru konur alltaf að hafa meiri möguleika á jafnrétti og verða þar af leiðandi nískari á þennan ástarkraft. Það þarf einhver að sjá um alla þessa ólaunuðu vinnu, þetta ósýnilega ástarhagkerfi. Það verður heldur enginn hagvöxtur ef þú ert búin að fá allar þínir óskir uppfylltar.“

En eru ástin og femínismi ósamrýmanleg? „Við erum ekkert á móti ástinni, við viljum bara afbyggja hana og skoða hvernig hún tengist kvenleikanum og karlmannenskunni á mismunandi hátt. Við viljum færa ástina nær einhverju eðlilegu, ekki bara því sem neyslusamfélagið segir okkur.“ Brynhildur Björnsdóttir og Annadís Rudólfsdóttir voru gestir í morgunútvarpinu.