Engin lög voru brotin þegar bankastjórn Seðlabankans tók ákvörðun um veitingu neyðarláns til Kaupþings að upphæð 500 milljónum evra 6. október 2008. Engu að síður sé ljóst í dag að ákvörðunin var röng, segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Sjá frétt: Neyðarlánið ekki rétt ákvörðun, segir Már

Hann kynnti í dag skýrslu bankans um neyðarlánið en aðeins rúmlega helmingur þess hefur verið endurheimtur. Már segir það ljóst af skýrslunni og öðrum gögnum er varða lánið að ákvörðunin hafi verið rædd utan veggja og vébanda bankans.

Engin lög brotin

Engin lög hafi verið brotin við lánveitinguna vegna þess hve rúm lagaákvæðin um slíkt hafi verið á þessum tíma. Lánið hafi verið veitt gegn veðum og tryggingum sem bankinn taldi vera gild þegar ákvörðunin var tekin.

„Eftir á hafi komið í ljós að veðið hafi ekki verið nægjanlega traust.“

Varðandi starfsreglur Seðlabankans, sem settar voru af bankastjórn hans, segir Már: „Kannski var ekki farið 100% eftir þeim. Mér finnst það vera meira aukaatriði því það breytir ekki niðurstöðunni. Það eru bankastjórarnir sem taka að lokum þessa ákvörðun og verða og eiga að taka. Þær reglur gerðu ráð fyrir töluverðum prósess og það var enginn tími til þess á þessum tímapunkti.“

Betur hefði mátt kanna veðið sem veitt var í danska bankanum FIH. Ákvörðunin hafi verið tekin á einum degi og þá hafi verið talið ekki mögulegt að taka veð í stóru eignasafni. Talið var að veðið nægði sem trygging fyrir láninu. 

Ekki heppilegt að taka lán í hlutafé erlends banka

„Ég held að við verðum að draga þann lærdóm fyrir framtíðina að það eigi að forðast það í lengstu lög að taka veð í hlutafé erlends banka. Ég tala nú ekki um þegar bankakreppa stendur yfir. Það er bæði vegna þess að hlutafé í banka getur gufað upp og í rauninni tapast fyrst, líka vegna þess að þá ertu kominn undir erlenda lögsögu. Erlend stjórnvöld og eftirlitsyfirvöld geta haft áhrif á ferlið, stundum til góðs en líka stundum með þeim hætti sem ekki endilega hentar okkar hagsmunum.“

Þrýst á sölu FIH

Aðspurður um hvort að dönsk stjórnvöld hafi beitt þrýstingi við söluferli FIH-bankans sem hófst árið 2010 segir Már að hægt sé að hafa um það mismunandi skoðanir. Þau hafi ekki gripið til aðgerða í tvö ár frá veitingu lánsins þegar FIH var í eigu þrotabús Kaupþings sem hvergi sé talinn viðeigandi eigandi banka. Hann segir hugsanlegt að óbeint eignarhald Seðlabankans á FIH hafi gert það að verkum að þau sýndu þessa þolinmæði.

„En á móti kemur að það verður náttúrulega  gífurlegur þrýstingur að hausti 2010. Ríkisábyrgðin á innstæðum og millibankafjármögnun FIH átti að renna út 30. september og það lá alveg fyrir að það var ekki hægt að halda bankanum gangandi við þær aðstæður sem þarna voru nema eitthvað kæmi í staðinn, eitthvað nýtt.“

Erfiðar samningaviðræður

Dönsk stjórnvöld hafi lagt áherslu á að eignarhaldi FIH yrði komið á hreint. Seðlabankinn vildi ekki gera það nema að veðið fyrir neyðarláninu yrði endurheimt og samningarnir um sölu bankans yrðu á þeim nótunum. 

„Það var spilað, eins og kemur fram í skýrslunni, kannski alveg fram á síðustu ögurstundu, meira að segja sagt við samninganefndina ef þið stoppið hér þá missið þið bankann, fáið ekki neitt og hann tekinn af ykkur. Þá var sagt okkur er sama, við höfum gengið í gegnum bankahrun. Þetta er nú ekki beinlínis í skýrslunni en það var allskonar svona, það var teflt fram á síðustu stundu og það tókst að ná þessum samningi sem þarna náðist. Þetta var það besta sem hægt var að ná í stöðunni vegna þeirra aðstæðna sem komnar voru upp í dönsku efnahagslífi. Samdráttur og svo efnahagsstöðnun, erfiðleikar í öllu bankakerfinu. Dönsk stjórnvöld þurftu að grípa til víðtækra björgunaraðgerða, hratt fall í lánshæfismati FIH-bankans þá rýrnaði þetta seljendalán mjög hratt.“

Ljóst í dag að röng ákvörðun var tekin

Már segist engan dóm vilja fella á það hvort að veiting neyðarlánsins hafi verið rétt ákvörðun bankastjórnar á sínum tíma. Hann bendi hins vegar á það í inngangi sínum að skýrslunni að ljóst væri í dag að það hefði verið betra að veita ekki lánið til Kaupþings.

„Við værum 240 milljónum evra ríkari en á móti kemur að það er mjög skiljanlegt að þess yrði freistað að skoða hvort að það væri einhver möguleiki með lausafjárfyrirgreiðslu í erlendri mynt að halda einum banka í landanum gangandi. Þetta var verið að gera út um allan heim. Eftir á að hyggja var ljóst að það nægði ekki til. Eftir á að hyggja reyndist veðið ekki nægjanlega gott vegna þess að hlutafé er krafa á framtíðarverðmæti og framtíðarverðmæti í Danmörku og bankakerfinu voru að rýrna.“

Lærdómur til framtíðar

Már segir aðalatriðið í skýrslunni vera læra af málinu til framtíðar.

Í fyrsta lagi þurfi stjórnsýslan í kringum veitingu neyðarlán að vera skýrari. Í frumvarpi til laga um Seðlabankann sem liggja fyrir Alþingi er stjórnsýslan gerði skýrari, þar er gert ráð fyrir að slíkar ákvarðanir verði teknar á fundum seðlabankastjóra og þriggja varabankastjóra og þær skráðar niður. Ekkert slíkt liggi fyrir er varðar neyðarlán til Kaupþings og engin gögn að finna innan Seðlabankans sem útskýrir sjónarmiðin að baki lánveitingunni.

Í öðru lagi þurfi Seðlabankinn að hafa betri innsýn hvaða veð eru tiltæk í bönkum á hverjum tíma fyrir lánveitingum sem þessum.

„Veð í hlutafé erlends banka er óheppilegt og auðvitað er miklu betra ef hægt er að koma því við að láta útbúa sértryggð skuldabréf eins og var gert í Noregi á sama tíma, Bretlandi og víðar. Það er held ég lærdómurinn.“