„Mér finnst sögurnar misgóðar. Kannski hefði mátt fækka þeim og þétta þær,“ segir Sverrir Norland um Skuggaskip, nýtt smásagnasafn eftir Gyrði Elíasson. Kolbrún Bergþórsdóttir segir hann uppfylla allar sínar kröfur í bókinni enda klikki Gyrðir aldrei.

Gyrðir slær nýjan tón í smásagnasafninu Skuggaskip sem kom út á dögunum. Um er að ræða tíunda smásagnasafn hans og eru sögunar gotneskar en húmorískar í senn. Gyrðir fléttar saman bernskuminningum, brothættu hjónalífi og dularfullum skógi og lesandinn ferðast bæði í framtíðina og aftur til fortíðar. Sögulegar persónur skjóta upp kollinum og Hitler fer meðal annars á stjá. Sverrir Norland og Kolbrún Bergþórsdóttir fjölluðu um smásagnasafnið í Kiljunni.

„Bókin er ekki dæmigerð fyrir Gyrði. Hann er að skrifa smásögur sem byggja á afhjúpun í lokin sem kemur á óvart sem er ekki venjan hjá honum,“ segir Sverrir Norland gagnrýnandi Kiljunnar. „Mér finnst sögurnar misgóðar. Kannski hefði mátt fækka þeim og þétta þær. Styrkur Gyrðis liggur í því óræða en þarna er hann stundum að tyggja ofan í okkur það sem hann er að segja. Engu að síður eru þetta allt mjög flottar sögur.“

„Ég hef unun af því að lesa Gyrði því hann skrifar svo dásamlega vel,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir dreymin. „Í þessum sögum er yfirleitt mikill tregi og missir en ég hafði líka gaman af fyndnu sögunum.“ „Án tregans og tragedíunnar er engin fyndni,“ skýtur Sverrir inn í.

„Þarna er líka rithöfundur sem týnir fimm hundruð síðna handriti og í þeirri sögu eru setningar um að ekkert sé varið í bækur nema þær séu mjög langar en Gyrðir skrifar sjálfur alltaf stuttar bækur,“ segir Kolbrún og skellihlær. „Mér finnst hann uppfylla allar mínar kröfur en mér finnst hann líka aldrei klikka,“ segir Kolbrún að lokum.

Alla umfjöllunina má sjá og hlýða á í spilaranum efst í fréttinni.