Grunnurinn að deilunum um þriðja orkupakkann er að ekki hefur farið fram málefnaleg umræða um framsal valds. Þetta sagði Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Engin ákvæði séu í stjórnarskrá Íslands um framsal valds eða nýtingu sameiginlegra auðlinda.

Svanur sagði á Morgunvaktinni að öfugt við Ísland hafi Norðmenn gert breytingar á sinni stjórnarskrá við inngönguna í EES, þar sem kveðið var á um framsal valds. Engar slíkar breytingar hafi verið gerðar á íslensku stjórnarskránni á sínum tíma, þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir um að EES samningurinn bryti gegn stjórnarskrá. Hér á landi var skipuð nefnd til að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar um hvort samningurinn fæli í sér brot gegn stjórnarskrá eða ekki. Meðal nefndarmanna var hæstaréttardómarinn Þór Vilhjálmsson. „Haldið þið að það gerist í öðru vestrænu ríki að hæstaréttardómari sitji til þess að gefa ríkisstjórninni ráðgjöf hvort eitthvað brjóti gegn stjórnarskránni eða ekki?“ spurði Svanur á Morgunvaktinni.

Hann sagði marga komna á þá skoðun að ef EES samningurinn hafi ekki brotið gegn stjórnarskrá í upphafi, þá geri hann það núna. Ekki aðeins vegna þriðja orkupakkans, heldur fjölda annarra mála. 

Það sem stendur eftir að mati Svans er tortryggnin á að ekki sé verið að fara eftir réttum leikreglum. Enn og aftur sé verið að framselja valdið. Hann sagði Norðmenn vera komna á þá skoðun að það sé meira framsal valds fólgið í því að vera í EES en í Evrópusambandinu. Þess vegna vilji margir þar berjast fyrir því að fara úr EES. „Ég treysti mér alveg til að rökstyðja það að það að vera í EES er meira framsal á fullveldinu heldur en að vera í Evrópusambandinu, því hér sitja menn áhrifalausir og taka við öllu sem Evrópusambandið kemur með. Meðal annars orkupakkanum,“ sagði Svanur á Morgunvaktinni.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Svan hér að neðan.