Forstjóri Útlendingastofnunar segir að engin áform séu um að falla frá brottvísun fjölskyldna til Grikklands. Brottvísun írakskrar fjölskyldu var frestað í dag.
Íslensk stjórnvöld áforma að senda minnst fimm fjölskyldur til Grikklands á næstu vikum. Hingað til hafa börn ekki verið send frá Íslandi til Grikklands. Rauði krossinn hefur mótmælt fyrirhuguðum brottvísunum. Í gær beitti gríska lögreglan táragasi og vatnsdælum á flóttafólk sem reyndi að komast yfir landamærin frá Tyrklandi. Vísa átti sex manna fjölskyldu frá Írak úr landi í dag en þeirri brottvísun hefur verið frestað fram í næstu viku.
„Þetta er alveg ótrúleg meðferð á fólki. Það er búið að tilkynna þeim að það eigi að senda þau úr landi. Síðan er þeim tilkynnt að það muni frestast um nokkra daga. Þetta er auðvitað bara tilfinningalegur rússíbani fyrir börnin og unga foreldra þeirra,“ segir Sema Erla Serdar, talsmaður fjölskyldunnar.
Þorsteinn Gunnarsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar, segir að ástandið í Grikklandi, og sérstaklega við landamæri Tyrklands, sé grafalvarlegt. Útlendingastofnun falli hins vegar ekki frá brottvísunum þar sem þær standist útlendingalög og fjölskyldurnar séu þegar með alþjóðlega vernd í Grikklandi.
„Eini hópurinn sem við skoðum að senda til baka til Grikklands eru einstaklingar sem hafa fengið þar jákvæða niðurstöðu, alþjóðlega vernd,“ segir Þorsteinn.
Aðspurður hvort ástandið í Grikklandi, sérstaklega eins og það hefur verið síðustu viku, sé nægilega gott til að Íslendingar geti með góðri samvisku vísað barnafjölskyldum þangað segir hann svo vera.
„Samkvæmt lögum um útlendinga þá er okkur ekki heimilt að senda neinn til baka sem gæti átt hættu á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Meðan við förum eftir því, já, þá getum við staðið við bak þessara ákvarðana með góðri samvisku,“ segir Þorsteinn.