Engar skýringar fást hjá innanríkisráðuneytinu á því hvers vegna enn er ekki komin niðurstaða í úttekt á samstarfserfiðleikum innan yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík, hálfu ári eftir að lögreglustjóranum var tilkynnt um úttektina.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 1. september 2014, fyrst kvenna. Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði hana í embættið án auglýsingar 24. júlí. Þá stóð rannsókn lekamálsins enn yfir. Nýi lögreglustjórinn réðst í miklar skipulagsbreytingar.
Innanríkisráðuneytið fékk í vor vinnusálfræðing til að ræða við alla helstu yfirmenn lögreglunnar í Reykjavík, um 20 manns, vegna samstarfserfiðleika innan yfirstjórnarinnar. Ástandið hefur ekkert batnað, samkvæmt heimildum fréttastofu. Lögreglustjórinn segir í samtali við fréttastofu að eðlilegt sé að þegar miklar breytingar séu gerðar á starfsemi gamalgróinnar stofnunar séu ekki allir fyllilega sáttir.
Lokahnykkurinn í breytingunum var nýtt skipurit sem tók gildi 9. júlí.
Lögreglustjóri og aðstoðarlögreglustjórarnir tveir eru ráðherraskipaðir. Lögreglustjóri skipar aðra í yfirstjórn, svo sem yfirlögregluþjóna. Aðstoðarlögreglustjórarnir, sem samkvæmt reglugerð eru stigi ofar í starfsröðinni en yfirlögregluþjónar, voru í nýja skipulaginu færðir á sama plan og yfirlögregluþjónarnir, en voru áður yfirmenn þeirra. Undir aðstoðarlögreglustjórana heyrðu áður nær allir í lögreglunni í Reykjavík, hundruð starfsmanna, en nú aðeins starfsmenn stoðdeildar og ákærudeildar. Yfirlögregluþjónarnir heyra nú beint undir lögreglustjóra. Alda Hrönn Jóhannsdóttir, nánasta samstarfskona Sigríðar Bjarkar til margra ára, tók við nýstofnuðu starfi aðallögfræðings.
Ráðuneytið segir að enn sé ekki komin niðurstaða í úttekt vinnusálfræðingsins á samstarfserfiðleikunum, hálfu ári eftir að tilkynnt var um hana. Engar skýringar fást hjá ráðuneytinu á töfunum. Ráðuneytið hefur ekki svarað spurningum fréttastofu um forsendur úttektarinnar, og hefur neitað að afhenda bréf sem lögreglustjóranum var sent í apríl, þar sem honum er tilkynnt um athugunina.
Innanríkisráðherra vildi ekki veita viðtal um málið. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur ráðuneytið fundað með vinnusálfræðingnum um það sem kom fram í viðtölunum. Lögreglustjórinn segir í samtali við fréttastofu að samskiptaerfiðleikar hefðu ekki áhrif á starfsemi embættisins, þótt menn greini á um áherslur.