„Það eru engar samningaviðræður í gangi um það að Sindri Þór Stefánsson komi heim,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sem vísar á bug að lögregla hafi átt í samskiptum við Sindra Þór Stefánsson eins og hann sjálfur heldur fram í yfirlýsingu sem birt var í Fréttablaðinu í dag. Það standi ekki til að eiga í slíkum viðræðum.

Sindri Þór flúði úr fangelsinu að Sogni aðfaranótt þriðjudags og komst til Svíþjóðar. Sindri Þór heldur því fram í yfirlýsingunni að hann hafi verið í haldi án gæsluvarðhaldsúrskurðar og hann hafi með flóttanum verið að mótmæla því að vera í haldi án dóms og laga. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum átti að renna út á mánudag og tók dómari sér frest til að úrskurða hann í gæsluvarðhald fram á þriðjudagsmorgun. Ólafur Helgi segir úrskurðinn engu að síður hafa verið í gildi. „Það er ávalt þannig þegar leitað er framlengingar á gæsluvarðhaldi þá heldur hinn fyrri úrskurður gildi sínu þangað til dómari hefur úrskurðað um nýja kröfu. Ég tel að lögin séu algjörlega skýr um þetta og ofan á það bætist að þetta er viðtekin venja og hefur verið alla mína tíð. Þetta er ekki túlkun lögreglunnar heldur réttarfarskerfisins sem heildar. Í þessu tilviki er það viðtekin venja og byggir á þeim rétti sem hefur verið stundaður að þegar dómari tekur sér frest þá er viðkomandi ekki frjáls. Hann verður að bíða úrskurðar.“ 

Ólafur Helgi ítrekar að lögreglan hafi ekki verið í samskiptum við Sindra Þór. Engar haldbærar sannanir væru fyrir því hvar hann væri þótt lögreglan hafi ákveðinn grun. Hann nefndi Spán sem mögulegan stað í viðtali í sjónvarpsfréttum í gær. „Ég nefndi Spán það er af því að það hefur oft verið nefnt við mig og þar eru grunaðir samverkamenn hans líka, eftir því sem við komumst næst,“ segir Ólafur Helgi og kýs að svara ekki hvort mennirnir séu íslenskir því menn teljist saklausir uns sekt þeirra er sönnuð fyrir dómi. 

Ólafur Helgi var spurður að því í Morgunútvarpinu hvort lögreglan hefði verið í einhverju sambandi við Sindra , þótt ekki væru eiginlegar samningaviðræður. „Mér er ekki kunnugt um það. Nú hef ég reyndar verið fjarverandi vegna starfa erlendis, en mér er ekki kunnugt um það að nokkur einasti maður hafi rætt við Sindra Þór og ég leyfi mér að fullyrða að svo sé ekki.“

Sindri Þór segist í yfirlýsingunni vonast til þess að hann fái að koma heim án þess að verða handtekinn erlendis. Ólafur Helgi segir það ekki koma til greina. „Ef hann finnst erlendis þá liggur það ljóst fyrir að það er til handtökuskipun á hann og því verður ekki breytt. Það liggur ljóst fyrir að hann yrði fluttur til Íslands. Hvað varðar viðurlög fangelsisins get ég ekkert sagt um en hitt fer til héraðssaksóknara til ákvörðunar.“