Bandaríski rapparinn ASAP Rocky er eins og kunnugt er orðið á bak við lás og slá í Svíþjóð eftir að til handalögmála kom þar í landi. Donald Trump hefur krafist þess að sænsk yfirvöld láti hann lausan, Justin Bieber biður forsetann að gera það sama við börn í búrum.
Í myndskeiði sem upprunalega var birt á slúðursíðunni TMZ sem víða hefur verið dreift af atvikinu má sjá hvernig ungur maður eltir rapparann og lífverði hans á röndum, og hættir ekki að atast í þeim þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um það. Eftir dágóðan ágreining ganga þeir í skrokk á manninum.
Rapparanum var stungið í steininn þar sem hann hefur fengið að dúsa í vikur og nú hefur Donald Trump bæst í hóp þeirra sem blanda sér í málið og berjast fyrir því að ASAP verði látinn laus. Rappmógúllinn Atli Már Steinarsson settist niður með Guðmundi Pálssyni og Andra Frey Viðarssyni til að ræða stöðu mála. „ASAP Rocky byrjar að taka atvikið upp á myndband og biður aðilann að láta sig í friði. Þetta endar með því að lífvörður rapparans reynir að færa manninn sem tekur upp heyrnatólin sín, bombar í hausinn á lífverðinum og krefst þess svo að þeir borgi sér til baka,“ útskýrir Atli Már.
Rúmlega 600 þúsund manns hafa þegar skrifað undir undirskriftarlista þar sem skorað er á yfirvöld í Svíþjóð að láta hann lausan og fjölmargir félagar ASAP úr tónlistarheiminum hafa brugðist við. Kanye West hefur ásamt forsetanum tíst um málið. „Tyler the creator segist aldrei aftur ætla til Svíþjóðar, Schoolboy Q ekki heldur eða Nicki Minaj. Fólk er bara að segja sleppið honum.“ Trump fer beint á Twitter að tjá sig um málið og fullvissar fylgjendur sína að hann sé kominn í samband við Stefan Löfven sem sé kominn í málið.
Áskoranirnar, tístin og undirskriftirnar virðast þó ekki hafa borið tilætlaðan árangur enda er rapparinn enn á bak við lás og slá. Móðir hans hefur einnig biðlað til yfirvalda að láta son sinn lausan en hún segir að hann sé ekki að nærast eða fá tækifæri til að hreyfa sig og það er henni áhyggjuefni.
Umræðan tók óvænta stefnu þegar Justin Bieber tísti um málið og minnti á mannréttindabrot Bandaríkjanna gagnvart börnum innflytjenda við landamærin, en börnin hafa verið aðskilin frá foreldrum sínum og eru geymd í búrum. Hann segir: Ég vil endilega að vinur minn sé látinn laus og ég kann að meta aðstoð þína Donald Trump, en á meðan þú ert að þessu gætirðu þá kannski sleppt börnunum úr búrunum?
„Þetta er djúpa hliðin á málinu,“ segir Atli. „Síðan Justin Bieber tísti þessu og er kominn með um það bil milljón læk. Fólki finnst forgangsröðun Trump skrýtin og börn að deyja í búðum fyrir innflytjendum. Það er stærsta upphrópunin núna að fólk er að átta sig á hræsninni.“
Myndskeið af öðrum bandarískum rappara, Future, hefur einnig farið sem eldur um sinu í netheimum en þar sést breskur maður kýla lífvörð hans með þeim afleiðingum að hann rotast. Athygli hefur vakið að í stað þess að koma starfsmanni sínum til bjargar þar sem hann liggur hreyfingalaus á jörðinni virðist rapparinn ganga í burtu. TMZ fullyrðir að ástæðan sé örlög kollega Future.
„Future segist hreinlega ekki hafa viljað stíga inn í og enda í fangelsi einsog ASAP. Nú er að verða trend að atast í þessu fólki.“
Viðtalið við Atla Má má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni.