Nú stendur yfir hin árlega Ástarvika í Bolungarvík. Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri segir að ástin í víðum skilningi sér gríðarlega mikilvæg vexti og framgangi bæjarfélagsins. Í ár verður svo lögð sérstök áhersla á ást bæjarbúa á Ísfirðingum sem verður boðið upp á ókeypis ís.
Þegar Ástarvikan er haldin fyrst árið 2004 var helsta takmarkið að hvetja bæjarbúa til að fjölga sér. Jón Páll segir þetta ennþá undirliggjandi markmið. „Nú er mikið verið að ræða sameiningar sveitarfélaga, við erum 950 hér í Bolungarvík. Það hefur verið lagt til af ráðherra að þau sveitarfélög sem séu undir 1000 íbúum sé gert að sameinast. Þannig okkur vantar 50. Þess vegna er ágætt tilefni að hlaða í ástarviku og sjá hvort við getum ekki fjölgað eitthvað.“ En Jón bætir við á ást af ókynferðislegum toga geti einni fjölgað Bolvíkingum. „Um allt land og allan heim er fólk sem elskar útivist, elskar náttúruna, elskar góðan fisk. Fólk gæti þess vegna í framhaldinu hugsað sér að búa í Bolungarvík á ástinni einni saman.“
Talsvert hefur verið í umræðunni möguleg sameining Ísafjarðar og Bolungarvíkur en hún hugnast Jóni Páli ekki. „Ég er nú fæddur og uppalinn á Ísafirði, og við Bolvíkingar þekkjum Ísfirðinga mjög vel, enda næstu nágrannar okkar. Í ljósi þeirrar umræðu höfðum við áhyggjur af því – því við erum mjög mótfallin þessum sameiningarhugmyndum – að Ísfirðingar fengu það á tilfinninguna að við værum hætt að elska þá. Sem er náttúrulega alls ekki satt. Þótt við viljum ekki sameinast þeim erum við alls ekki hætt að elska þá. Þannig eitt af þema ástarvikunnar í ár er „Við elskum Ísfirðinga“.“
Og til að kóróna það og sýna ástina í verki býðst Ísfirðingum ókeypis ís þegar þeir koma í sund á Bolungarvík í Ástarvikunni. „Það er varla hægt að hugsa sér meiri ástarjátningu heldur en að fá ókeypis ís í Musteri vatns og vellíðunar, eins og við köllum sundlaugina í Bolungarvík.“ Í Ástarvikunni eru svo ótal viðburðir á boðstólum; Ástarsögur allra tíma á bókasafninu, hlaðborð hlýjunnar í félagsheimilinu og fyrirlesturinn kynheilbrigði, lyklapartý og losti.
Gunnar Hansson og Guðrún Gunnarsdóttir ræddu við Jón Páll Hreinsson í Mannlega þættinum. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild og þáttinn í spilara RÚV.