Tónlistarkonan Elín Ey kom fram í seinni undanúrslitum Söngvakeppninnar 2020 á laugardag og flutti hugljúfa ábreiðu af ABBA-laginu Waterloo.
Fáar hljómsveitir hafa skotist jafn hratt og örugglega upp á stjörnuhimininn með sigrí í Eurovision og sænski kvartetinn ABBA sem vann keppnina árið 1974 með laginu Waterloo. Sveitin varð ein frægasta hljómsveit heims á diskóárunum og Agnetha og Anni-Frid urðu stórstjörnur.
Á seinni undanúrslitum Söngvakeppninnar 2020 í Háskólabíói síðastliðinn laugardag flutti íslenska tónlistarkonan Elín Ey ábreiðu af Waterloo sem er bæði lágstemmdari og hugljúfari en upprunaleg útgáfa. Einstök rödd söngkonunnar og nýstárleg útsetningin gefur laginu glænýja merkingu. Lagið gaf tónlistarkonan út sama dag í sínum búningi á Spotify.