Eldur kviknaði í skyggni í skála álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík í kvöld. Logar hlupu í útvegg þar sem menn voru við vinnu í álverinu. Eldurinn logaði að mestu utandyra og lagði mikinn svartan reyk frá húsinu. Óskað var eftir aðstoð Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og fjölmennt lið sent á staðinn. Vel gekk að slökkva eldinn og fljótlega var öllum sveitum slökkviliðisins snúið við, nema einum bíl.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu var búið að slökkva eldinn upp úr klukkan tíu. Þá vann slökkvilið álversins og áhöfn eins slökkvibíls frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu að því að leita að glæðum og sjá til þess að eldurinn tæki sig ekki upp á ný.

Ekki er að sjá að neinn hafi slasast af völdum eldsins.

Fréttin var uppfærð klukkan 22:20.