Metangas, sem dugir til að knýja fjögur til fimm þúsund litla fólksbíla í heilt ár, fer til spillis hjá Sorpu vegna lítillar eftirspurnar. Framkvæmdastjóri Sorpu furðar sig á því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem eiga Sorpu, skuli ekki nýta gasið í meira mæli á þjónustubíla sína. Aðeins tveir strætisvagnar á höfuðborgarsvæðinu ganga fyrir metani.

Um hundrað borholur eru á svæði Sorpu á Álfsnesi skammt norðan Mosfellsbæjar. Borað er ofan í haug af lífrænum úrgangi og metangasið sem myndast þar er flutt með lögn yfir í söfnunargám og svo þaðan yfir í hreinsistöð.

„Með þessum tækjabúnaði sem er hérna þá getum við framleitt milli þrjár og fjórar milljónir rúmmetra af metani,“ segir Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

En hversu mikið er framleitt og nýtt?

„Það er nýtt í dag svona um það bil tvær milljónir rúmmetra sem er nýtt í ökutæki á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Björn.

Og hvað verður um afganginn?

„Hann er brenndur, engum til gagns. Því miður,“ segir Björn. 

Í sérstökum brennara í Álfsnesi er umframframleiðsla af metangasi svo brennd. Hún myndi duga til að knýja fjögur til fimm þúsund smábíla í heilt. Björn segir það sorglegt að metangasið sé ekki nýtt betur.

„Þarna er tækifæri sem væri hægt að nýta, draga úr gróðurhúsalofttegundum á Íslandi með því að nýta þetta betur,“ segir Björn.

Þá er metanið er ódýrara en bensín.

„Þá kostar bensínlítrinn í dag eitthvað í kringum 240 krónur en sama orka í metani kostar 135,“ segir Björn.

Björn segir að lítið framboð af metanbílum sé ein ástæða þess að ekki sé meiri eftirpurn eftir metangasi.

„Það er líka þannig að það hefur kannski verið svolítið mikill áróður fyrir rafmagnsbílunum,“ segir Björn.

Þá þurfi að vera fleiri en fjórar metanstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Ein stöð er á Akureyri og þar ganga strætisvagnar og bílar sem sinna ferðaþjónustu fatlaðra fyrir metani. Sorpa er í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

„Hér hins vegar á höfuðborgarsvæðinu er ekki einn einasti sem notar metan í þau ökutæki [fyrir ferðaþjónustu fatlaðra] og því miður einungis tveir strætisvagnar,“ segir Björn. Þeir vagnar séu komnir til ára sinna.

 

Þá má geta þess að allir sorphirðubílar borgarinnar sem Reykjavíkurborg á og rekur auk á fimmta tug annarra bíla hjá borginni notast við metangas.