Á Hönnunarsafni Íslands stendur yfir sýningin Það skal vanda sem lengi á að standa. Þar er farið yfir feril Sveins Kjarvals innanhúss- og húsgagnahönnuðar sem er eitt stærsta nafnið í íslenskri innanhúshönnunarsögu.

Sveinn Kjarval var sonur þeirra Jóhannesar Kjarval listmálara og hinnar dönsku Tove Kjarval. Hann ólst upp hjá móður sinni í Danmörku og lærði húsgagnasmíði áður en hann flutti til Íslands tvítugur að aldri árið 1939. Hér stofnaði hann fjölskyldu og starfaði sem húsgagnasmiður þar til í stríðslok, þegar hann fór aftur til Danmerkur í framhaldsnám og lærði húsgagna- og innanhússhönnun. Sveinn sneri aftur til Íslands árið 1949 og byrjaði strax að ryðja nútímalegum innanhúsarkitektúr til rúms.  „Sveinn er eitt stærsta nafnið í íslenskri hönnunarsögu hvað innanhúshönnun snertir,“ segir dr. Arndís S. Árnadóttir, sýningarstjóri. 

Þótt húsgögnin séu það sem helst stendur hannaði Sveinn líka ótal innréttingar sem settu svip á samtímann. „Hann til dæmis kom að annað hundruð heimilum sem hann annað hvort teiknaði húsgögn eftir pöntunum eða hannaði allt húsið eða íbúðina. Hann hannaði líka mikið af innréttingum í miðbæ Reykjavíkur, margar verslanir þar sem hann teiknaði mjög nútímalegar innréttingar með mjög léttum stíl. En hann var kannski öflugastur í að teikna húsgögn. Það er það sem eftir stendur því að innréttingarnar eru meira og minna horfnar. Það má segja að það sé allt farið nema kannski bókhlaðan á Bessastöðum.“ 

Einkenni á innanhúsmunum Sveins voru léttbyggð húsgögn þar sem efniviðurinn átti að njóta sín og formin standast ótvírætt tímans tönn. Arndís er ekki viss um að yngri kynslóðir séu nógu meðvitaðar um hönnun Sveins. „Eldri kynslóðin þekkir hann og þeir sem eru svo heppnir eiga húsgögn sem hann teiknaði á einkaheimili, þessir gripir hljóta að vera til víða. Hér erum við bara að sýna mest úr safneign Hönnunarsafnsins en um leið að falast eftir að fólk gefi sig fram sem á kannski áhugaverða gripi sem við höfum ekki séð.“

Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.