Félagsmálaráðherra segir að ekki sé til meira fé til að bæta kjör öryrkja en raun ber vitni. Talsmaður Öryrkjabandalagsins segir að nýtt frumvarp ráðherra hafi lítil áhrif, þótt öðru sé haldið fram af ráðuneytinu.

Kjör öryrkja batna lítið með fyrirhugaðri breytingu á tekjuskerðingu örorkulífeyris, að mati Öryrkjabandalagsins. Skerðingin verður 65 aurar á hverja krónu, í stað krónu á móti krónu áður.

Skerðingin nær til um sjö þúsund öryrkja en að sögn Öryrkjabandalagsins mun þeim fjölga verði frumvarpið samþykkt. Í frumvarpinu segir að í stað þess að miða útreikning á fjárhæð bóta við allar tekjur lífeyrisþega verði miðað við 65 prósent af tekjum. Þar með verði svokölluð „krónu á móti krónu" skerðing afnumin.

Hefði viljað sjá stærri skref

Bergþór Heimir Þórðarson starfandi formaður kjarahóps bandalagsins segir að að lágmarki hefði átt að fara niður í fimmtíu prósent. „Þetta eru jákvæð, mjög lítil skref í rétta átt. En við hefðum viljað sjá þau miklu stærri. Maður fær á tilfinninguna að það sé verið að auglýsa þetta frumvarp með mun betri kjarabótum heldur en raunin er þegar maður fer að skoða það almennilega,“ segir Bergþór Heimir.

Bergþór Heimir segir erfitt að henda reiður á það hvað þetta þýði nákvæmlega fyrir þennan hóp fyrr en nánari upplýsingar fáist frá ráðuneytinu. „Almennt hefur þetta lítil áhrif nema á mögulega þá sem hafa litlar tekjur utan Tryggingastofnun og þetta hefur líklega engin áhrif á þá sem hafa bara tekjur frá Tryggingastofnun, “ segir Bergþór Heimir jafnframt.

„Þeir sem fengu fyrst örorkumat ungir eru að fá mest út úr þessu en eftir því sem fólk verður eldra því meira vegur þessi króna á móti krónu skerðing.“ Þá segir Bergþór að Öryrkjabandalagið vilji sjá sambærilegt kerfi og hjá öldruðum, þar sem sé frítekjumark.

Samtals fjórir milljarðar til öryrkja á tveimur árum

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra segir að verja eigi 2,9 milljörðum á þessu ári til að bæta kjör örorkulífeyrisþega og 1,1 milljarði á því næsta.  „Við getum ekki ráðstafað meira fjármagni heldur en okkur er úthlutað og við erum að nýta það til að draga úr skerðingu. Við erum ekki að gera meira vegna þess að það fjármagn sem ráðuneytinu er skammtað frá fjárveitingarvaldinu er ekki meira en raun ber vitni. Hins vegar er mikilvægt að taka það líka fram að þetta er jákvætt skref,“ segir Ásmundur Einar. Markmiðið með frumvarpinu sé að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku.