Tveggja milljóna króna mánaðarlaun bæjarstjóra Mosfellsbæjar og Kópavogs eru í samræmi við ábyrgð starfsins, segja fulltrúar úr bæjarstjórnum sveitarfélaganna. Launin séu samræmi við önnur sambærileg stjórnunarstörf.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, eru með önnur og þriðju hæstu laun sveitarstjórnarmanna á Íslandi á eftir Gunnari Einarssyni bæjarstjóra Garðabæjar. Báðir eru þeir með rétt rúmlega tvær milljónir í mánaðarlaun. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði við fréttastofu fyrir helgi að mikilvægt væri að sveitarfélög gætu svarað fyrir laun sveitar- og bæjarstjóra.

En hvað ákvarðar laun bæjarstjóra? 

„Það má kannski segja að við miðum við að það sé einhver samanburður á milli sveitarfélaga, ef sjá má að borin eru saman laun sveitar- og bæjarstjóra eru þau á svipuðum stað, ég tala nú ekki um ef það eru borið við forstjóra í ríkisfyrirtækjum, þá er það á þessu róli," segir Margrét Friðriksdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs um tveggja milljóna króna laun Ármanns.

Starfinu fylgi umsjón margra stórra málaflokka. „Ég held að fólk átti sig ekki á því hve umfangsmikið starfið er og að bæjarstjóri þarf náttúrulega líka að vera á vakt á kvöldin, um helgar og helgidaga. Síðan má ekki gleyma að hjá Kópavogsbæ starfa 2500 manns þannig þetta er gríðarlega stór vinnustaður," segir Margrét.

„Það kom upp mikil óánægja fyrir síðustu kosningar með laun bæjarstjóra Kópavogs og við brugðumst við því með að lækka launin um 15 prósent," segir Margrét. Ekki hafi komið til tals að lækka laun Ármanns frekar.

Ekki hægt að ráða ópólitískan bæjarstjóra á lægri launum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar, segir laun Haralds í samræmi við laun millistjórnenda í einkafyrirtækjum.

„Ef við hefðum þurft að ráða bæjarstjóra, ekki pólitískan, hefðum við ekki getað ráðið hann á lægri launum. En þetta er mikið ábyrgðarstarf og við teljum að þannig fáum við það hæfa einstaklinga sem þarf til að sinna rekstri svona sveitarfélaga," segir Kolbrún.

Starfinu fylgi mikil ábyrgð. „Hér þarf að stökkva út á öllum tímum, þetta er mikil ábyrgð og það hefur ekki veitt af að hafa aðila sem getur haldið vel utan um málin eins og þann bæjarstjóra sem við höfum núna," segir Kolbrún.

Laun Haralds voru lækkuð á síðasta ári. „Eflaust eru einhverjir þarna úti sem finnast þetta há laun, og þetta eru sennilega há laun en eins og staðan er í dag, nei, þá höfum við ekki farið í frekari skoðun um að lækka launin," segir hún.