Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins var gestur í Morgunútvarpinu í morgun og sagði hann umræðu Miðflokksmanna efnismikla og nauðsynlega en þingfundi var slitið klukkan sex í morgun. Þá höfðu þingmenn Miðflokksins rætt sín á milli um þriðja orkupakkann frá því klukkan þrjú í gærdag.

Ólafur sagði í Morgunútvarpinu að ástæðan fyrir málþófi flokksins sé að þau einfaldlega telji málið ekki nógu vel undirbúið eða nógu vel rannsakað. Vilji sé fyrir að málinu verði frestað. „Það væri það fyrsta að menn gæfu sér meiri tíma, það er ekkert í málinu sem kallar á að þetta verði  afgreitt núna í maí," segir Ólafur.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum sé nauðsynlegt sé að skoða þriðja orkupakkann í samhengi við það hvað felist í fjórða orkupakkanum. Verulegur vafi sé á að innleiðing orkupakkans standist ákvæði stjórnarskrárinnar.

Þá vísaði hann því á bug að Miðflokkurinn ætli að gera atlögu að EES samningnum. Sjálfur hafi hann verið hlynntur samningum frá fyrsta degi og beitt sér fyrir því á Alþingi að ný skýrsla yrði gerð um kosti og galla hans. „Ég tel að í þessu felist stuðningur í verki við EES samstarfið og ég hef ekki fundið það á nokkrum manni í því liði sem fylgir mér að það sé nokkur bilbugur á þeim gagnvart EES samstarfinu," segir Ólafur Ísleifsson.